2006 Göran Sonnevi, Svíþjóð: Oceanen

2006 Göran Sonnevi, Sverige: Oceanen
Sara Mac Key

Um höfundinn

Göran Sonnevi fæddist í Lundi en ólst upp í Halmstad. Fyrsta ljóðabók hans, Outfört, kom út árið 1961. Hann er eitt þekktasta skáld Svía og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir ritstörf sín, þar á meðal Bellman-verðlaunin, ljóðaverðlaun Aftonbladet og De nios stora pris.

Um vinningsverkið

Ljóðabókin Oceanen kom út árið 2005 en eins og titillinn gefur til kynna er ljóðasafninu líkt við úthafið. Stutt ljóð berast með öldum lengri ljóða og mynda þannig úthaf orðanna. Dauðinn er meginþema ljóðanna þar sem hinir látnu eru ávarpaðir: foreldrar skáldsins, vinir og skáldbræður, Dante, Hölderlin og Blake. Oceanen er nokkurs konar sjálfsævisaga í búningi ljóðs sem spannar líf sem enn er ekki lokið. Oceanen er pólitísk bók, starfið á vinstri vængnum er mikilvægt en einnig andmælin og endurmatið. Oceanen er gagnrýnin bók þar sem mælt er gegn rányrkju, styrjöldum, auðvaldi og heimsvaldastefnu. Oceanen er um leið hvetjandi og höfðar til ábyrgðar einstaklingsins á stjórnmálum, siðferði og samferðafólki sínu. Í lokin er Oceanen þó ort í nafni ástarinnar: Dularfull og erótísk, munúðarfull og andleg.

Oceanen

Útgáfa: Albert Bonniers Förlag 

Útgáfuár: 2005

Hér er rökstuðningur dómnefndarinnar

Oceanen er úthaf orða sem hægt er að sökkva sér í og láta umlykja sig. Það nær yfir líf og skáldskap sem enn lifir og er leitandi. Með ákafri nauðsyn skrifar Sonnevi ljóð sem eru í stöðugri samræðu við pólitík og félagsleg málefni en einnig persónulegri spurningar um sök og ábyrgð.