Leiðbeiningar: nám á Álandseyjum
Sem nemandi á Álandseyjum getur þú lifað virku og fjölbreyttu námsmannalífi þökk sé þeirri fjölbreyttri starfsemi sem er að finna á eyjunum. Þú getur notið lífsins allt árið um kring í náttúrunni með reiðtúrum, skautaferðum, klettaklifri og kajaksiglingum. Ef þú vilt fá meira líf í tuskurnar er auðvelt að ferðast til nálægra borga á borð við Stokkhólm, Uppsali og Turku, sem eru í aðeins nokkurra tíma fjarlægð meðferju, og enn skemur með flugi.
Það er snjallt að undirbúa flutning til Álandseyja með góðum fyrirvara til að allt gangi vel fyrir sig. Það er nefnilega að mörgu að huga, svo sem hvar þú átt að hafa skráð lögheimili, hvort þú eigir rétt á fjárhagslegri námsaðstoð og hvað gerist ef þú veikist á meðan þú ert í námi á Álandseyjum.
Við höfum tekið saman þessar leiðbeiningar til að aðstoða þig í ferlinu.
Norrænir og erlendir ríkisborgarar geta stundað nám á Álandseyjum
Þökk sé norrænum samningi um aðgang að æðri menntun geta norrænir ríkisborgarar sótt um opinbera háskólamenntun í öllum norrænu löndunum. Þeir þurfa ekki að sækja um sérstakt atvinnu- eða dvalarleyfi til að stunda nám á Álandseyjum.
Ríkisborgarar annarra ESB-ríkja, Sviss og Liechtenstein geta einnig stundað nám á Álandseyjum án þess að sækja um atvinnu- eða dvalarleyfi. Þú þarft þó að skrá þig hjá Migrationsverket ef þú hyggst dvelja lengur en í þrjá mánuði á Álandseyjum.
Ef þú ert ríkisborgari þriðja ríkis þarftu að sækja um dvalarleyfi áður en þú kemur til Álandseyja vegna náms.
Nám á sænsku á mismunandi stigum á Álandseyjum
Skólakerfið á Álandseyjum samanstendur af leikskólum, grunnskólum, framhaldsskóla, háskóla og lýðháskóla.
Lýðháskólinn á Álandseyjum, Ålands lyceum (framhaldsskóli) og Ålands yrkesgymnasium (verkmenntaskóli) halda úti sameiginlegu umsóknarkerfi á vefnum. Ef sænska er ekki móðurmál þitt þarftu að sýna fram á að þú búir yfir nægilegri sænskukunnáttu til að geta tjáð þig í máli og riti á sænsku. Á Álandseyjum er gerð krafa um B1-stig í sænsku en norrænir námsmenn eru undanskildir þessari kröfu.
Medborgarinstitutet (Medis) býður upp á sænskunámskeið fyrir einstaklinga með annað móðurmál en sænsku. Námið er m.a. miðað að því að undirbúa þig fyrir frekara nám á sænsku. Sænska er töluðum í öllum skólum á Álandseyjum.
Um umsóknarferli æðri menntunar á Álandseyjum
Háskólinn á Álandseyjum býður upp á ýmsar námsbrautir sem leiða til bakkalárgráðu og eina námsbraut á meistarastigi. Einnig er hægt að sækja einstök námskeið í Opna háskólanum.
Til að sækja um bakkalárnám eða meistaranám við Háskólann á Álandseyjum þarftu fyrst að tryggja að þú uppfyllir inntökuskilyrðin. Engin inntökuskilyrði eru í Opna háskólanum; öllum er frjálst að skrá sig í opin námskeið. Háskólinn á Álandseyjum tekur við umsóknum á ári hverju.
Bakkalárnám Háskólans á Álandseyjum er ókeypis öllum. Meistaranámið er gjaldskylt fyrir ríkisborgara landa utan ESB, Sviss og Liechtenstein. Opni háskólinn innheimtir skólagjöld fyrir hverja önn.
Skiptinám á Álandseyjum
Ef þú er nemandi í norrænu landi getur þú athugað hvort skólinn þinn bjóði upp á skiptinám á Álandseyjum. Einnig eru til margar alþjóðlegar skiptiáætlanir á borð við Erasmus+ og Nordplus.
Fjárhagsaðstoð fyrir námsmenn á Álandseyjum
Norrænir ríkisborgarar fá yfirleitt námslán eða námsstyrk frá heimalandi sínu þegar þeir eru í námi á Álandseyjum. Ef þú býrð á Álandseyjum lengur en sex mánuði getur þú sótt um fjárhagslega námsaðstoð frá Álandseyjum. Einnig eru til aðrar tegundir styrkja sem hægt er að fá fyrir að búa og stunda nám á Álandseyjum.
Menntun frá Álandseyjum nýtt erlendis
Almennt er hægt að sækja um framhaldsmenntun og vinnu annars staðar á Norðurlöndum að loknu námi á Álandseyjum.
Fyrir tilteknar starfsgreinar gilda þó sérstakar kröfur sem eru mismunandi milli landa. Í öllum norrænu löndunum eru einnig ýmsar löggiltar starfsgreinar sem krefjast starfsleyfis. Þetta á sérstaklega við um menntun innan heilbrigðisþjónustu og starfsmenntun.
Þú skalt því athuga hvort námið sem þú ert að íhuga að stunda á Álandseyjum gefi þér réttindi fyrir starfið sem þú vilt fá í því landi sem þú vilt búa í að loknu námi.
Hagnýtar upplýsingar fyrir þau sem vilja stunda nám á Álandseyjum
Þegar flutt er til á Álandseyja til að búa þar og stunda nám þarf að huga að ýmsum praktískum atriðum. Hér að neðan er að finna gagnlegar upplýsingar um nám á Álandseyjum. Þú getur einnig lesið leiðbeiningar okkar um flutning til Álandseyja.
Þú getur leigt námsmannaíbúð í gegnum Háskólann á Álandseyjum. Einkarekin leigufélög og leigufélög sveitarfélaganna leigja einnig út herbergi og íbúðir.
Ef þú hyggst flytja til á Álandseyja til að stunda þar nám lengur en í eitt ár þarftu að tilkynna flutninginn og skrá þig í þjóðskrá í Finnlandi. Ekki þarf að tilkynna flutning til skemmri tíma. Mundu að biðja um endursendingu pósts til heimisfangs þíns á Álandseyjum!
Ef þú komst til Álandseyja frá öðru norrænu landi til að stunda nám telst dvölin alla jafna vera tímabundin. Þá fellur þú undir almannatryggingar búsetulands þíns. Nemendur frá Norðurlöndum eiga rétt á heilbrigðisþjónustu á Álandseyjum. Ef þú átt evrópskt sjúkratryggingakort skaltu taka það með þér til á Álandseyja.
Ef þú hyggst vinna með náminu þarftu að kanna í hvaða landi þú átt að gefa tekjurnar upp. Alla jafna er skattur greiddur í landi vinnustaðarins og einnig geta almannatryggingar flust þangað.
Ekki er nauðsynlegt að hafa einkatryggingar við námsdvöl á Álandseyjum en það getur verið gott að kaupa ferðatryggingu og heimilistryggingu. Hafðu samband við tryggingafélagið þitt til að athuga hvort tryggingar þínar gildi meðan á námsdvölinni stendur eða hvort þú þurfir að tryggja þig að nýju hjá tryggingafélagi á Álandseyjum.
Þú ættir að geta haldið áfram að nota sama greiðslukort og áður á Álandseyjum. Hafðu samband við bankann þinn til að fá upplýsingar um hvaða reglur gilda um þig. Þú getur einnig opnað bankareikning og fengið greiðslukort á Álandseyjum ef þú kýst það heldur.
Gakktu úr skugga að þú hafir allar innskráningarupplýsingar, rafræn skilríki og PIN-númer til að geta átt í samskiptum við yfirvöld í heimalandi þínu áður en þú ferð til Álandseyja.
Námsmannasamtökin á Álandseyjum eiga í samstarfi við stafræna námsmannakortið Frank, sem er app fyrir námsmannaafslætti.
Nemendur við Háskólann á Álandseyjum fá hádegisverð á sérstökum afsláttarkjörum. Einnig er boðið upp á hádegisverðarsal þar sem ókeypis er að geyma, hita upp og borða eigið nesti.
Skólarnir á Álandseyjum geta veitt frekari aðstoð
Hafðu samband við skólann sem þú vilt stunda nám við til að fá nánari upplýsingar um námið og líf námsmanna á Álandseyjum.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.