Starfsleyfi og viðurkenning erlendra prófgráða í Svíþjóð

Mand med gul hjelm ved stikkontakt
Ljósmyndari
Emmanuel Ikwuegbu / Unsplash
Kynntu þér hvernig þú færð menntun þína viðurkennda og hvernig þú sækir um starfsleyfi ef þú vilt starfa í Svíþjóð með erlendri menntun. Hér eru einnig gefnar upplýsingar um mögulegar reglur sem kunna að gilda um þína starfsgrein.

Nám annars staðar á Norðurlöndum er viðurkennt í Svíþjóð. Ef þú hefur lokað námi annars staðar á Norðurlöndum geturðu fengið það viðurkennt í Svíþjóð þegar þú sækir um nám, þarft að fá nám þitt í heimalandinu metið í Svíþjóð eða vilt fara á vinnumarkaðinn.

Sumar starfsgreinar eru þó lögverndaðar, eða löggiltar. Til að geta starfað innan lögverndaðrar starfsgreinar þarftu sérstaka menntun, að standast ákveðin próf og/eða skrá þig hjá fagsamtökum. Ef þitt starf er lögverndað í Svíþjóð þarftu að fá starfsréttindi þín viðurkennd í Svíþjóð áður en þú getur hafið störf.

Viðurkenning á erlendum prófgráðum í Svíþjóð

Ef þú vilt starfa eða stunda nám í Svíþjóð en hefur menntað þig í öðru landi gætir þú þurft að fá menntunina viðurkennda.

Hvenær þarf að láta meta menntun í Svíþjóð?

Það hvort fá þurfi viðurkenningu á erlendu námi er yfirleitt háð því hvort stunda á framhaldsnám í Svíþjóð eða starfa innan lögverndaðrar starfsgreinar.

Allir einstaklingar sem eiga rétt á að starfa í Svíþjóð geta fengið menntun sem þeir hafa lokið erlendis metna og fengið fyrir það vottorð. Þannig geta einstaklingar sem eru ríkisborgarar ESB-/EES-ríkja eða hafa dvalarleyfi eða atvinnuleyfi í Svíþjóð fengið menntun sína metna.

Hvar er menntun metin í Svíþjóð?

Háskólaráðið (Universitets- och högskolerådet, UHR) metur erlent framhaldsskólanám, fagnám að loknum framhaldsskóla og háskólanám. 

Þú getur fengið menntun þína metna með netþjónustu UHR („bedömningstjänst“), þar sem sjá má samsvarandi menntun í Svíþjóð. Ef þú finnur ekki menntun þína í netþjónustu UHR eða ef þú vilt fá ítarlegri lýsingu á menntun þinni getur þú sótt um að fá vottorð frá UHR. Vottorðið er ókeypis stafrænt skjal. Skjalið er ekki sænskt prófskírteini.

Ekki þarf að bíða eftir mati á menntun til að skrá sig í háskólanám, þar sem mat á erlendu framhaldsskólanámi er hluti af inntökuferlinu.

Mat á námi eða vottorð gagnast einnig þegar sótt er um vinnu. Þannig á vinnuveitandinn auðveldar með að átta sig á menntun þinni. Það er þó vinnuveitandinn sem ákveður hvort færni þín henti fyrir starfið.

Þú hefur aðgang að netþjónustu UHR.

Starfsleyfi í Svíþjóð

Í Svíþjóð eru tilteknar starfsgreinar lögverndaðar, sem þýðir að sérstakt starfsleyfi eða annað leyfi þarf frá viðeigandi stofnunum til að starfa innan þeirra.

Starfsleyfi er staðfesting á réttindum til að starfa innan tiltekins fagsviðs. Það er trygging fyrir því að þú hafir lokið réttu námi og búir yfir nauðsynlegri færni. 

Hvaða starfsgreinar eru lögverndaðar í Svíþjóð?

Læknar, hjúkrunarfræðingar, lögfræðingar, lyfjafræðingar og tannlæknar eru á meðal þeirra starfsgreina sem eru lögverndaðar í Svíþjóð. Það þýðir að uppfylla þarf tilteknar kröfur og fá leyfi frá viðeigandi stofnunum til að geta starfað innan þessara starfsgreina.

Hvernig er sótt um starfsleyfi í Svíþjóð?

Ferlið til að fá starfsleyfi getur verið mismunandi milli starfsgreina. Yfirleitt þarf að hafa samband við viðeigandi yfirvöld eða fagsamtök í Svíþjóð sem hafa umsjón með starfsleyfum fyrir viðkomandi starfsgrein. Þar færðu leiðbeiningar um umsóknarferlið og hvaða skjöl þarf að leggja fram. Þau kunna að biðja um vottuð afrit til sönnunar á gildi skjalanna eða löggildar þýðingar á skjölum, til að mynda prófskírteinum.

Munið að láta öll nauðsynleg gögn fylgja umsókninni. Það er ekki fyrr en umsókninni fylgja öll nauðsynleg gögn að þú getur fengið menntun þína metna.

Mismunandi stofnanir bera ábyrgð á því að meta menntun fyrir lögverndaðar starfsgreinar í Svíþjóð. Til dæmis ber heilsu- og velferðarstofnun Svíþjóðar (Socialstyrelsen) ábyrgð á lækna- og hjúkrunarfræðimenntun en skólayfirvöld (Skolverket) ber ábyrgð á kennararéttindum.

Sænskar starfsgreinareglur

Auk lögverndaðra starfsgreina eru gilda sérstakar reglur og kröfur um tilteknar starfsgreinar í Svíþjóð.

Reglur sem þessar eiga við um einstakar starfsgreinar eða geira og geta m.a. átt við um framhaldsnám, vottun og öryggisstaðla, og þá sérstaklega í byggingariðnaði og samgöngum. 

Norræn fyrirtæki og einstaklingar eiga að geta unnið í öðrum norrænum löndum en í sumum tilvikum koma lög eða starfsgreinareglur í veg fyrir frjálsa för á milli norrænna vinnumarkaða. Þessar áskoranir krefjast yfirleitt sértækra lausna fyrir hverja starfsgrein.

Oft má ráða bót á vandamálum vegna hindrana með betri upplýsingagjöf frá starfsgreinasamtökum, stéttarfélögum og þjónustum á borð við Info Norden.

Info Norden heldur ekki úti tæmandi lista yfir allar starfsgreinareglur í Svíþjóð en ef þú veist um hindranir og áskoranir á þessu sviði er þér velkomið að hafa samband við Info Norden með eins nákvæmum upplýsingum og þú getur.

Vottorð fyrir störf í byggingariðnaði í Svíþjóð

Þarf ég sveinspróf til að starfa í byggingariðnaði í Svíþjóð?

Með einstökum undantekningum er hægt að starfa í Svíþjóð án sveinsprófs innan þeirra starfsgreinar sem falla undir ábyrgðarsvið fagnefndar byggingariðnaðarins (Byggbranschens Yrkesnämnd, BYN). Aðeins er gerð krafa um sveinspróf fyrir atvinnukafara og tiltekna vélastjórnendur.

Í öðrum starfsgreinum ræður sveinsprófið þó miklu um launastig, þar sem starfsmenn með sveinspróf eru á hærra launastigi en þeir sem eru án sveinsprófs.

Gildir sveinspróf mitt frá öðru norrænu landi ef ég vil starfa í byggingariðnaði í Svíþjóð?

Ef þú menntaðir þig í Noregi gildir sveinsprófið þitt í Svíþjóð. Ef þú menntaðir þig í öðru norrænu landi gildir sveinsprófið ekki sjálfkrafa. Þess í stað sækir þú um viðurkenningu á starfsréttindum („erkännandeintyg“) hjá fagnefnd byggingariðnaðarins (Byggbranschens Yrkesnämnd, BYN).

Hvað þarf að gera til að fá viðurkenningu á starfsréttindum í Svíþjóð?

Í Svíþjóð fást starfsréttindi með því að ljúka sænskri fagmenntun og starfa í 24, 30 eða 36 mánuði í faginu (lengdin fer eftir fagi). Þú getur fengið viðurkenningu á starfsréttindum ef þú hefur lokið samsvarandi menntun og ert með samsvarandi starfsreynslu í öðru norrænu landi. Sótt er um viðurkenninguna hjá Byggbranschens Yrkesnämnd. Greiða þarf gjald fyrir viðurkenninguna og berst hún eftir um einn mánuð ef skilyrði fyrir færni og reynslu eru uppfyllt.

Hvar get ég lesið meira?

Nánari upplýsingar eru á vefsíðu Byggbranschens Yrkesnämnd.

Vottorð fyrir rafvirkja í Svíþjóð

Þarf ég að fá viðurkenningu á rafvirkjunarmenntun minni í öðru norrænu landi ef ég vil starfa í Svíþjóð?

Nei, þess þarf ekki. Ef þú menntaðir þig sem rafvirki í norrænu landi þarftu ekki að láta meta menntun þína til að geta starfað í öðru norrænu landi. Norðurlöndin eiga í samstarfi sem felur í sér að rafvirkjunarmenntun frá einu landi er viðurkennd í öllum hinum norrænu löndunum.

Ég þarf enn að sýna ECY-vottorð. Hvað geri ég?

Í sumum tilfellum gera sænsk fyrirtæki kröfu um vottorð sem gefið er út af starfsgreinasamtökunum Elbranchens Centrala Yrkesnämnd (ECY). Vottorðið er staðfesting á því að viðkomandi hafi lokið þremur tilteknum námskeiðum og hafi sænskuþekkingu sem samsvarar SFI-stigi D (sænskunámskeið D fyrir innflytjendur). Vinnuveitendur gera yfirleitt kröfu um vottorðið þegar þeir þurfa að fá tryggingu á því að starfsmaðurinn búi yfir tiltekinni færni sem kennd er á námskeiðunum þremur, ef hún er mikilvæg fyrir viðkomandi starf.

Rafvirkjar frá öðrum norrænum löndum geta einnig fengið ókeypis mat hjá ECY ef þeir óska eftir því að fá sænskt skjal með mati á menntun þeirra og færni. Þeir þurfa þó aðeins að senda inn gögn og fá ókeypis mat innan skamms – í mesta lagi eftir þrjár vikur en oft innan nokkurra daga.

Hvað geri ég ef vil fá ECY-vottorð?

Ef þú ert norrænn ríkisborgari og vilt fá ECY-vottorð þarftu að hafa lokið rafvirkjunarnámi í norrænu landi og þremur tilteknum námskeiðum. Ef þú hefur ekki lokið þessum námskeiðum þarftu að bæta þeim við menntun þína. Það tekur í mesta lagi fjóra daga. Námskeiðin eru haldin í þróunar- og kennslumiðstöð uppsetningarstarfa, Installationsbranchens utbildnings- och utvecklingscenter (INSU). Til að fá ECY-vottorð þarftu að hafa starfað í að minnsta kosti þrjá mánuði hjá fyrirtæki sem er með starfsamning milli Installatörsföretagen og Svenska Elektrikerförbundet og hafa sænskuþekkingu sem samsvarar a.m.k. D-stigi SFI.

Hvar get ég lesið meira?

Nánari upplýsingar eru á vefsíðum Elbranschens centrala yrkesnämnd og Elsäkerhetsverket.

Námskeiðið SSG Entre Basic fyrir iðnaðarstörf í Svíþjóð

Geta fyrirtæki krafist þess að ég ljúki námskeiðinu SSG Entre Basic ef ég vil starfa í Svíþjóð?

Já. Í Svíþjóð krefjast sum fyrirtæki þess að aðilar sem vinna á iðnaðarsvæði þess hafi lokið öryggisnámskeiðinu SSG Entre Basic. Hvert og eitt fyrirtæki getur ákveðið hvort það geri kröfu um SSG Entre Basic eða námskeið frá öðrum aðila.

Hvers vegna þarf að sitja námskeið?

Námskeið á borð við SSG Entre Basic auðvelda fyrirtækjum að tryggja að fólk sem starfar á iðnaðarsvæði þeirra fylgir settum öryggisráðstöfunum og -reglum.

Hvað þarf að gera til að ljúka námskeiðinu?

Námskeiðið er í boði á netinu. Það tekur í mesta lagi þrjár klukkustundir og kostar um 1000 sænskar krónur. Að námskeiðinu loknu gildir það í þrjú ár.

Get ég setið námskeiðið á móðurmáli mínu?

Boðið er upp á námskeiðið á 18 tungumálum, þar á meðal mörgum Norðurlandamálum.

Hvar get ég lesið meira?

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Standard Solutions Groups

Starfsgreinar í Svíþjóð með sérreglum

Í Svíþjóð eru starfsgreinar sem aðeins er hægt að starfa við í Svíþjóð með sænsku ríkisfangi eða sænskri menntun. Þetta á til að mynda við um dómara, presta og lögreglu. Yfirleitt gilda sérstakar kröfur og skilyrði um störf á þessum sviðum.

Viðurkennd menntun frá heimalandi

Ef þú menntar þig erlendis er ráðlagt að kanna hvort námið sem sé örugglega viðurkennt í heimalandi þínu ef þú hyggst snúa heim til að starfa þar að námi loknu.

Starfsmenntavegabréfið Europass

Það er draumur margra að starfa eða stunda nám eða starfsnám erlendis. Til að auðvelda það er hægt að útbúa alþjóðlega ferilskrá sem sýnir menntun þína og starfsreynslu á skýran hátt fyrir önnur lönd.

Með „Europass-ferilskrá“ er hægt að búa til sérsniðna ferilskrá sem tryggir að umsóknargögn þín séu skiljanleg og viðurkennd í allri Evrópu. Hún er ein leið til að sýna fram á menntun og reynslu.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna