Starfsleyfi og viðurkenning erlendra prófgráða í Danmörku
Ef þú hefur lokið erlendu námi og vilt starfa í Danmörku gæti verið góð hugmynd að fá námið metið svo þú vitir gildi þess í Danmörku. Hafðu einnig í huga að sumar starfsgreinar eru löggiltar og þar getur verið krafist dansks starfsleyfis.
Í sumum starfsgreinum gilda sérreglur ef þú hyggst starfa í Danmörku. Sumar starfsgreinar eru löggiltar en um aðrar gilda alþjóðlegar reglur eða aðrar sérreglur.
Viðurkenning á erlendum prófgráðum í Danmörku
Þú getur sótt um að erlend menntun þín verði metin í Danmörku hjá mennta- og rannsóknastofnun Danmerkur (Uddannelses- og Forskningsstyrelsen). Þar er nám þitt á öllum stigum metið.
Matið er ókeypis en þýðing á skjölum er ekki innifalin.
Nánari upplýsingar um norrænt samstarf um gagnkvæma viðurkenningu á menntun er að finna á vef danska mennta- og rannsóknaráðuneytisins.
Norðurlöndin viðurkenna inngöngupróf hvert frá öðru. Í Danmörku er þar átt við lokapróf úr framhaldsskóla. Ef einstaklingur er með framhaldsskólapróf frá öðru norrænu ríki hefur hann rétt á fá inngöngu í framhaldsnám á sömu forsendum og námsmenn með danska menntun.
Athugaðu að Danmörk og Noregur hafa gert með sér samning um hámarksfjölda norskra námsmanna sem geta stundað nám í læknisfræði og tannlækningum í Danmörku og öfugt.
Ef þú ert með erlent próf og vilt vinna í Danmörku getur mennta- og rannsóknastofnun Danmerkur metið til hvaða stigs menntunar í Danmörku menntun þín svarar og eftir því sem hægt er undir hvaða fagsvið hún heyrir. Stofnunin metur nám þitt á öllum stigum.
Þú getur lagt matið fram þegar þú sækir um starf. Þannig á vinnuveitandinn auðveldar með að átta sig á menntun þinni.
Það þó vinnuveitandinn sem ákveður hvort færni þín henti fyrir starfið. Opinberum vinnuveitendum ber þó að samþykkja menntun þína á því stigi sem mennta- og rannsóknastofnunin hefur tilgreint.
Löggiltar starfsgreinar og starfsleyfi í Danmörku
Sumar starfsgreinar eru löggiltar í Danmörku og þar er þess krafist að þú sækir um starfsleyfi frá yfirvöldum. Um aðrar gilda alþjóðlegar reglur sem hafa verður í huga. Það kann ávallt að borga sig fyrir þig að fá námið metið.
Ef þú starfar aðeins tímabundið eða tilfallandi í Danmörku geturðu í sumum tilvikum sent yfirvöldum tilkynningu í stað þess að sækja um starfsleyfi.
Um 120 starfsgreinar í Danmörku krefjast starfsleyfis. Heildarlista yfir þær á dönsku og ensku má nálgast á vef mennta- og rannsóknaráðuneytisins. Þar er að finna leiðbeiningar um hvernig þú sækir um starfsleyfi í tilteknum starfsgreinum.
Í sumum starfsgreinum eru mjög takmarkaðir möguleikar á því að fá starfsleyfi með erlendar prófgráður. Einnig kann að vera gerð krafa um danskan ríkisborgararétt ef um er að ræða starf hjá opinberum yfirvöldum. Slík störf falla ekki undir evrópska, norræna eða tvíhliða samninga um viðurkenningu á starfsréttindum. Þetta á við um störf sem dómari, prestur eða innan lögreglunnar.
Alþjóðlegar reglur gilda um einstök starfsheiti í tilteknum starfsgreinum á sviði vega-, loft- og sjóflutninga.
Nánari upplýsingar er að finna hjá mennta- og rannsóknaráðuneytinu.
Auk löggiltra starfsgreina gilda sérstakar reglur um sumar starfsgreinar, t.d. varðandi menntun og vottun. Slíkar starfsgreinareglur eru sérstaklega algengar í tengslum við byggingariðnað og samgöngur.
Info Norden er ekki með tæmandi lista yfir allar starfsgreinareglur í Danmörku.
Hafðu samband við Info Norden til að fá nánari upplýsingar um starfsgreinareglur
Norræn fyrirtæki og einstaklingar eiga að geta unnið í öðrum norrænum löndum en í sumum tilvikum koma lög eða starfsgreinareglur í veg fyrir frjálsa för á milli norrænna vinnumarkaða.
Hindranir sem stafa af starfsgreinareglum þarf yfirleitt að leysa innan viðkomandi greinar. Oft má ráða bót á vandamálum vegna hindrana með betri upplýsingagjöf. Það getur verið í gegnum starfsgreinasamtök, stéttarfélög eða upplýsingaþjónustur á borð við Info Norden.
Info Norden skorar á bæði starfsgreinasamtök, stéttarfélög, fyrirtæki og starfsfólk að leggja til upplýsingar um starfsgreinareglur á Norðurlöndum.
Ef þú þekkir til slíkra reglna á Norðurlöndum og þeirra hindrana sem þær kunn að hafa í för með sér máttu hafa samband við Info Norden og lýsa þeim eins vel og þú getur.
Ef þú ert ríkisborgari í öðru ESB- eða EES-landi og hefur starfað þar í landi að starfsgrein þinni er þér heimilt að starfa tímabundið eða við og við í Danmörku að því tilskildu að þú tilkynnir það skriflega til viðkomandi yfirvalda. Þú þarft ekki að tilkynna þig sem starfandi í greininni nema þess sé krafist í reglum sem gilda um umrædda starfsgrein.
Ef þú ert ríkisborgari í landi utan ESB eða EES geturðu aðeins skráð þig sem starfandi í greininni ef reglur um starfsgreinina leyfa það.
Innan ákveðinna starfsgreina sem hafa gildi fyrir almennt heilbrigði og öryggi er yfirvöldum heimilt að ganga úr skugga um starfsréttindi þín áður en þú hefur störf í Danmörku.
Þegar þú flytur í fyrsta sinn til Danmerkur í því skyni að veita þjónustu þarftu að tilkynna það skriflega til yfirvalda sem er að finna á listanum yfir löggiltar starfsgreinar.
Tilkynningunni þurfa að fylgja þau gögn sem krafist er og þú þarft að endurnýja tilkynninguna á hverju ári.
Starfsmenntavegabréfið Europass
Europass felur í sér ýmis stafræn tól og gagnlegar upplýsingar sem geta hjálpað þér á öllum stigum í námi og starfi. Tólin og upplýsingarnar hjálpa þér að koma hæfni þinni og reynslu með skýrum og markvissum hætti á framfæri við viðtakendur um alla Evrópu. Þú getur stofnað Europass-prófíl á europa.eu. Framkvæmdastjórn ESB stendur að Europass.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.