2016 Katarina Frostenson, Svíþjóð: Sånger och formler
Um höfundinn
Katarina Frostenson er fædd árið 1953 og búsett í Stokkhólmi. Hún er ljóðskáld, rithöfundur, leikskáld og þýðandi og hefur átt sæti nr. 18 í Sænsku akademíunni síðan 1992. Katarina Frostenson kvaddi sér fyrst hljóðs árið 1987 með ljóðabókinni I mellan. Hún hefur gefið út fjölda ljóðabóka, prósaverka, þýðinga og esseyja. Höfundarverk hennar er fjölbreytt en hefur jafnframt ríka samfellu. Hún hefur um langa hríð, í raun allt frá upphafi ferils síns, verið á meðal helstu samtímaljóðskálda Svía.
Um vinningsverkið
Sånger och formler (Wahlström & Widstrand 2015) er nýjasta ljóðabók Katarinu Frostenson. Tungumálið tekur á sig mynd og form þegar hún mundar orðin og snýr þeim á alla kanta, leitar merkingar og blæbrigða líkt og orðin og tvíræð tilvera þeirra rúmi alla leyndardóma veraldar og mannlegrar tilveru. Fyrr en varir er lesandinn niðursokkinn í frásögn af líkamlegustu og andlegustu opinberunum tilverunnar, um yfirþyrmandi ferð með matarleifar og bein um skolpræsi, syngjandi fagran óð til borgarinnar Minsk og hvítrússneskrar tungu, hlý og ástrík ljóð til Marínu Tsvetajevu, myndir frá úthverfum og miðborg Stokkhólms og goðsagnapersónuna Marsýas, fleginn lifandi og ofurseldan tónlist og þjáningu.
Sånger och formler
Útgáfa: Wahlström & Widstrand
Útgáfuár: 2015
Hér er rökstuðningur dómnefndarinnar
Handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2016 er ljóðskáld með langan feril og margþætt höfundarverk að baki. Í vef samtíma og goðsagna, nánasta umhverfis og víðrar veraldar, áþreifanlegs hvunndags og ferðalaga um minningar, bókmenntir og söngva, laðar hún heildina fram gegnum smáatriðin. Ljóðabókin Sånger och formler eftir Katarinu Frostenson er frásögn af hinum líkamlegu og andlegu opinberunum lífsins, um hið smáa í því stóra og um manneskjuna í heiminum. Ljóð hennar kunna að virðast ströng en eru í raun einstaklega gjöful; í þeim eiga stöðugar breytingar sér stað; og í þessum breytingum kristallast undur lífsins.