Håvard Gimse

Håvard Gimse
Ljósmyndari
Lilja Hendel
Håvard Gimse er á meðal hinna 13 sem tilnefndir eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Rökstuðningur:

Píanóleikarinn  Håvard Gimse hefur sérstöðu meðal norsks tónlistarfólks og er einnig í fremstu röð norrænna tónlistarflytjenda. Dálæti hans á skandinavískri og norskri tónlist hefur gert hann að einum áhrifamesta listamanni svæðisins á því sviði. Gimse er bæði eftirsóttur einleikari og kammerflytjandi og margir af bestu sígildu tónlistarmönnum í Skandinavíu hafa einnig sóst eftir kröftum hans sem undirleikara. Håvard Gimse er prófessor við tónlistarháskóla Noregs og var listrænn stjórnandi kammertónlistarhátíðarinnar í Ósló þar til fyrir skemmstu. Hann hefur átt glæstan feril á alþjóðavettvangi og hefur frá árinu 1992 sent frá sér fjöldann allan af áhrifamiklum plötum. Gimse hefur farið vítt og breitt um Skandinavíu á tónleikaferðalögum, leikið með hljómsveitum um allan heim og spilað á mörgum af virtustu tónleikastöðum heims. Það aðdáunarverðasta við Håvard Gimse er þó að enn í dag, eftir langan og farsælan feril, verður hann stöðugt áhugaverðari og meira hvetjandi fyrir bæði áheyrendur, tónskáld og kollega sína í hópi tónlistarflytjenda. Hann spilar af óútreiknanlegu fjöri og orku augnabliksins sem ekki er annað hægt en að hrífast af.