Norður

Rune Denstad Langlo fékk hugmyndina að Norður þegar hann gekk í gegnum erfiðleika í lífi sínu og bað hann norska rithöfundinn/handritshöfundinn Erlend Loe að skrifa handrit að kvikmynd í fullri lengd. Leikstjórinn nýtir reynslu sína af því að nýta ólærða leikara í heimildarmyndum við upptökur á næratriðum og einnig leikarann Anders Baasmo Christiansen sem fer með sitt fyrsta stóra hlutverk í myndinni.

Þessi „andþunglyndis utanvega-mynd” er tekin í ísilögðu landslagi Norður-Noregs og kvikmyndatökumaður er Philip Øgaard (The Kautokeino Rebellion).

Norður var opnunarmynd Panorama hluta kvikmyndahátíðarinnar í Berlín árið 2009, þar sem hún uppskar standandi lófatak áhorfenda og var valin til alþjóðlegrar dreifingar á sex svæðum. Í Berlín hlaut hún FIPRESCI verðlaunin sem besta mynd og seinna Europa Cinemas Label Award og einnig Best New Narrative Filmmaker verðlaunin á Tribeca kvikmyndahátíðinni í New York, sem Robert de Niro stendur fyrir.

Ágrip

Skíðamaðurinn Jomar hefur einangrað sig sem vörður á skíðasvæði eftir að hafa fengið taugaáfall. Þegar hann fréttir að hann gæti verið faðir barns sem býr langt í norðri heldur hann af stað í undarlega og ljóðræna ferð í gegnum Noreg á snjósleða, með fimm lítra af áfengi sem einu vistirnar.

Á ferð sinni um ótrúlegt heimskautalandslag virðist Jomar gera allt til þess að komast hjá því að ná á áfangastað. Hann hittir aðrar viðkvæmar og villtar sálir sem allar leggja sitt af mörkum til að ýta Jomar áfram á mótþróakenndri ferð hans í átt að bjartari hlið lífsins.

Leikstjóri – Rune Denstad Langlo

Hinn 37 ára gamli leikstjóri er fæddur í Þrándheimi og hefur meira en tíu ára reynslu sem leikstjóri og framleiðandi heimildarmynda. Norður er fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd. Hann hóf störf hjá framleiðslufyrirtækinu Motlys árið 1998 sem aðstoðarmaður framleiðanda og rannsóknarmaður fyrir mynd um Roald Amundsen. Síðan leikstýrði hann heimldarmyndunum Too much Norway (2005), til að minnast aldarafmælis landsins og 99% Honest (2008) um hip hopp hljómsveit. Báðar voru þær sýndar í kvikmyndahúsum og hlutu lof gagnrýnenda.

Handritshöfundur – Erlend Loe

Erlend Loe hefur verið einn virtasti rithöfundur Noregs síðan um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Fyrsta bók hans Tatt av kvinnen (Tekinn af konunni) kom út árið 1993 og önnur skáldsaga hans Naive Super (1997) varð feikivinsæl og metsölubók um alla Evrópu.  Sem handritshöfundur með prófgráðu frá danska kvikmyndaskólanum hefur hann skrifað kvikmyndahandrit úr bókum sínum Tekinn af konunni fyrir kvikmyndagerðarmanninn Petter Næss og Kurt snýst til hins illa sem leikstjórinn Rasmus A. Sivertsen gerði að teiknimynd. Hann skrifaði einnig handritið að hinni margrómuðu Detektor, sem var fyrsta kvikmynd Pål Jackman í fullri lengd.

Framleiðandi – Sigve Endresen

Sigve Enderesn hefur starfað við kvikmyndagerð í Noregi síðan 1975. Hann leikstýrði fyrstu stuttmynd sinni árið 1978 og stofnaði framleiðslufyrirtækið Motlys árið 1983. Fyrirtækið sem nú er rekið af honum ásamt framleiðendunum Yngve Sæther og Brede Hovland, er eitt fremsta framleiðslufyrirtæki leikinna kvikmynda og heimildarmynda í Skandínavíu.

Endresen hefur leikstýrt fjölmörgum heimildarmyndum sem hlotið hafa verðlaun og komið á framfæri nokkrum af öflugustu leikstjórum Noregs, eins og Nils Gaup(Misery Harbour) Marius Holst (Dragonflies), og Gunnar Vikene (Falling Sky). Hann var einnig meðframleiðandi dönsku myndarinnar Listin að gráta í kór sem hlaut Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2007 og sænsku myndarinnar Everlasting Moments.

Mikilvægar upplýsingar um framleiðslu

Frumtitill - Norður

Leikstjóri - Rune Denstad Langlo

Handritshöfundur - Erlend Loe

Aðalhlutverk - Anders Baasmo Christiansen, Kyrre Hellum, Mads Sjøgård Pettersen, Lars Olsen, Astrid Solhaug

Producer - Sigve Endersen

Framleiðslufyrirtæki - Motlys

Lengd kvikmyndarinnar - 78 mínútur

Dreifingaraðili í Noregi - Sandrew Metronome Norge

Sala á alþjóðamarkaði - Memento Film Sales