Sara Parkman & Hampus Norén

Ljósmyndari
Märta Thisner
Tónskáldin Sara Parkman og Hampus Norén eru tilnefnd til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir plötuna „Eros agape philia“ (2022).

Sara Parkman (f. 1989) er einstök rödd í sænskri samtímatónlist. Í bráðum áratug hefur hún ásamt félaga sínum Hampus Norén blásið nýju lífi í sænska þjóðlagatónlist af óþrjótandi krafti, hugmyndaflugi og hugrekki, en tvíeykið semur og framleiðir alla sólótónlist Parkman í nánu samstarfi. 

 

Af mikilli virðingu fyrir hinum melódísku, spilaglöðu og angurværu rótum sænskrar þjóðlagatónlistarhefðar hafa Parkman og Norén endurnýjað greinina með poppkenndum viðlögum, persónulegum textum, raftónlistartöktum, hlýjum strengjum, stórfenglegum kórum, frásagnarmiðaðri sviðslist og metnaðarfullum konseptplötum. 

 

Eros agape philia er þriðja plata Söru Parkman undir eigin nafni, verk þar sem ástinni er lýst frá þremur sjónarhornum – erótík, heilagleika og djúpri vináttu. Tónlistin mótast lipurlega eftir þeim hughrifum sem ljóðrænir lagatextarnir skapa hverju sinni – sem stundum eru örlagaþrungin og angurvær, stundum uppfull af sprengikrafti og lífi – meðal annars ásamt kórnum Hägersten A Capella undir stjórn Kerstin Börjeson. 

 

Platan ber vott um djarfa þróun frá því á síðustu plötu Parkman, hinni trúarlega leitandi „Vesper“, en sú nýja er ekki síður heillandi og marglaga. Sara Parkman hlaut sænsku Grammis-verðlaunin 2023 í flokknum „Þjóðlagatónlist ársins“ fyrir Eros agape philia. Á Manifest-verðlaunahátíðinni sænsku sama ár hlaut hún verðlaun fyrir þjóðlagatónlist ársins og tilraunakennda tónlist ársins (fyrir aðra plötu, unna í samstarfi við Maria W. Horn) og einnig verðlaun SKAP (sambands sænskra tónskálda og textahöfunda) og Manifest, sem veitt voru tónskáldi ársins (fyrir höfundarverk í heild).