Thelma – Noregur

Billede fra "Thelma" (Norge) - Eili Harboe
Photographer
Motlys AS
Norska kvikmyndin „Thelma“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2018.

Thelma er hlédræg ung stúlka úr smábæ á vesturströnd Noregs sem hefur nýlega yfirgefið heittrúaða fjölskyldu sína til að stunda háskólanám í Ósló. Dag einn á bókasafninu fær hún skyndilega ofsafengið flogakast. Í kjölfarið uppgötvar Thelma að hún laðast sterklega að einum samnemenda sinna, hinni fögru Önju, sem endurgeldur hrifningu hennar. Thelma þorir ekki að gangast við tilfinningum sínum gagnvart Önju, ekki einu sinni í einrúmi, en þegar líður á önnina verður hrifningin æ meira yfirþyrmandi um leið og flogaköstin halda áfram og færast í aukana. Brátt kemur á daginn að flog Thelmu stafa af óútskýranlegum – og oft varasömum – yfirnáttúrulegum hæfileikum sem hún býr yfir. Áður en yfir lýkur þarf hún að takast á við hörmuleg leyndarmál úr fortíð sinni og þá skuggahlið sem fylgir kröftum hennar.

Rökstuðningur dómnefndar

Joachim Trier nýtir sér stílbrögð úr hryllingsmyndum og ævintýrum til að segja sögu hinnar einmana, angurværu og næmu Thelmu og dregur jafnframt upp trúverðuga mynd af þeirri togstreitu sem bæling hefur í för með sér. Spennan sem hlýst af bældum kenndum er ógnvænleg þegar hún brýst upp á yfirborðið.

Með myndavél má lýsa heiminum utan frá séð, en kvikmynd getur skapað veröld sem er engri annarri lík og dregið upp mynd sem ekki er beinlínis af heiminum heldur af tiltekinni upplifun á honum. Í Thelmu er þetta gert með fágaðri kvikmyndun sem skipar sér í flokk með því eftirminnilegasta sem sést hefur í norskri kvikmyndagerð í seinni tíð.

Handritshöfundur / leikstjóri – Joachim Trier

Joachim Trier (f. 1974) er handritshöfundur, leikstjóri og framleiðandi og meðeigandi framleiðslufyrirtækisins Oslo Pictures.

Trier nam við Evrópska kvikmyndaskólann í Danmörku og National Film and Television School í Bretlandi. Þar gerði hann fjölda stuttmynda sem unnu til ýmissa verðlauna. Trier öðlaðist skjóta heimsfrægð eftir fyrstu mynd sína í fullri lengd, Reprise (2006), sem fór um allan heim og hlaut rúmlega 20 viðurkenningar, m.a. fyrir bestu leikstjórn á kvikmyndahátíðinni í Karlovy Vary og Discovery-verðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Toronto. Önnur kvikmynd hans, Oslo, 31. august, var valin til sýninga í flokknum Un Certain Regard á hátíðinni í Cannes 2011 og hlaut verðlaun fyrir bestu leikstjórn á Amanda-verðlaunahátíðinni í Noregi árið 2012.

Louder Than Bombs, frumraun Triers á ensku, skartaði Gabriel Byrne, Jesse Eisenberg og Isabelle Huppert í aðalhlutverkum. Hún var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2015 og hlaut fjölda verðlauna, svo sem Bronshestinn fyrir bestu mynd á kvikmyndahátíðinni í Stokkhólmi og fjölmörg Amanda-verðlaun, meðal annars fyrir bestu leikstjórn og handrit.

Thelma var opnunarmynd alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Haugesund í Noregi 2017 og hefur síðan verið valin til sýninga á yfir 40 alþjóðlegar hátíðir. Myndin hefur hlotið 13 verðlaun, meðal annars gagnrýnendaverðlaun á hátíðinni í Haugesund, verðlaun sérstakrar dómnefndar fyrir besta handrit á hátíðinni í Sitges, verðlaun Houston Film Critics Society sem besta erlenda mynd ársins 2017 og verðlaun félags norskra kvikmyndagagnrýnenda fyrir besta leik í aðalhlutverki og bestu tónlist. Myndin var einnig valin sem framlag Noregs til Óskarsverðlaunanna í flokki erlendra kvikmynda árið 2018.

Trier hlaut kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2016 fyrir Louder Than Bombs. Hann var tilnefndur til verðlaunanna árið 2007 fyrir Reprise og aftur 2011 fyrir Oslo, 31. august.

Hann var forseti dómnefndar á Critics‘ Week á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2018.

Handritshöfundur – Eskil Vogt

Eskil Vogt (f. 1974) er handritshöfundur, leikstjóri og framleiðandi og meðeigandi framleiðslufyrirtækisins Oslo Pictures.

Hann hefur komið að handritaskrifum fyrir allar myndir Joachims Trier, þar á meðal RepriseOslo, 31. augustLouder Than Bombs og Thelmu.

Vogt nam leikstjórn við franska kvikmyndaskólann La Fémis. Fyrsta stuttmynd hans í Frakklandi, Une étreinte, vann til Prix UIP-verðlaunanna á stuttmyndahátíðinni í Grimstad í Noregi 2003, og Les étrangers vann til European Jury-verðlaunanna á Premiers Plans-hátíðinni í Angers í Frakklandi árið 2005.

Blind, fyrsta kvikmyndin í fullri lengd sem Vogt skrifaði handrit að og leikstýrði, var frumsýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni árið 2014, þar sem hún hlaut verðlaun fyrir besta handrit í flokki alþjóðlegra mynda. Hún hlaut fjölda annarra viðurkenninga, svo sem verðlaun fyrir bestu evrópsku myndina í Panorama-flokki á kvikmyndahátíðinni í Berlín 2014, New Talent Grand PIX á CPH PIX í Kaupmannahöfn og fjögur Amanda-verðlaun, meðal annars fyrir leikstjórn og leik í aðalhlutverki. Blind var einnig tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2014.

Næsta verkefni Vogts sem leikstjóra og handritshöfundar er norsk spennu-hryllingsmynd um bernskuna sem hlotið hefur vinnutitilinn De uskyldige og er framleidd af Mer Film.

Framleiðandi – Thomas Robsahm

Thomas Robsahm (f. 1964) er margverðlaunaður kvikmyndaframleiðandi, leikstjóri, tónlistarmaður og fyrrum leikari. Hann er einn eigenda framleiðslufyrirtækisins Oslo Pictures.

Robsahm leikstýrði fyrstu mynd sinni, Svarte pantere (1992), að loknum ferli sem ungur leikari. Síðan hefur hann leikstýrt bæði kvikmyndum og heimildarmyndum, svo sem S.O.S., sem hlaut Amanda-verðlaun sem besta myndin 2000, og Moderne slaveri, sem hlaut Amanda-verðlaun í flokki heimildarmynda 2009.

Sem framleiðandi hefur Robsahm starfað ásamt leikstjórum á borð við Joachim Trier, Margreth Olin, Solveig Melkeraaen, Jannicke Systad Jacobsen, Unni Straume og Emil Trier. Hann framleiddi bæði Louder Than Bombsog Thelmu eftir Joachim Trier, en sú fyrrnefnda hlaut kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2016.

Næsta myndin í fullri lengd sem Robsahm framleiðir er norska spennumyndin Håp sem Maria Sødahl leikstýrir, með Stellan Skarsgård og Andreu Bræin Hovig í aðalhlutverkum.

Robsahm gekk til liðs við framleiðslufyrirtækið Oslo Pictures fyrr á þessu ári eftir fimm ára samstarf við Motlys. Þar áður starfaði hann hjá Norrænu kvikmyndamiðstöðinni á árunum 2009–2013.

Framleiðsluupplýsingar

Titill á frummáli: Thelma

Leikstjórn: Joachim Trier

Handrit: Eskil Vogt, Joachim Trier

Framleiðandi: Thomas Robsahm

Aðalhlutverk: Eili Harboe, Kaya Wilkins, Henrik Rafaelsen

Framleiðslufyrirtæki: Motlys

Lengd: 110 mínútur

Dreifing í Noregi: SF Studios

Alþjóðleg dreifing: Memento Films International