Þórarinn Leifsson

Þórarinn Leifsson
Þórarinn Leifsson: Maðurinn sem hataði börn. Roman, Mál og menning, 2014.

Maðurinn sem hataði börn er þriðja barnabók Þórarins Leifssonar. Fyrri bækur hans, Leyndarmál pabba (2007) og Bókasafn ömmu Huldar (2009), eru nýstárlegar, spennandi, fyndnar og skelfilegar. Sú fyrri fjallar um pabba sem er enginn venjulegur pabbi heldur er hann mannæta. Sú seinni fjallar um framtíðarheim þar sem öllum bókum er kerfisbundið útrýmt. Nýjasta bók Þórarins er hefur sömu höfundareinkenni og fyrri bækurnar tvær: Fyndin, spennandi, fræðandi og hrollvekjandi en fyrst og fremst sterk og frumleg.

Söguhetja bókarinnar er Sylvek Kaminski Arias, spænskur innflytjandi af pólskum uppruna, sem býr í Reykjavík með ömmu sinni. Móðir hans er dáin, eldri systir hans er þegar sagan hefst horfin og– þau eru alveg að verða búin með evru-pokann sem þau komu með frá Barcelona fyrir tveimur árum. Fjölskyldan ein og sér er efni í skáldsögu en þetta er aðeins toppurinn á ísjakanum því borgin nötrar af ótta við drengjamorðingja af herfilegustu sort. Nýi leigjandinn á heimili Sylveks reynist svo vera barnahatari og Sylvek er sannfærður um að það sé hann sem er drengjamorðinginn. Sagan sem fylgir í kjölfarið er æsispennandi og berst niður í undirheima Reykjavíkur á ævintýralegan hatt. Sagan er leynilögreglusaga, menningarádeila, saga um skáldskap og fjöldamenningu, en fyrst og fremst þroskasaga Sylveks, nýbúa í því framandi og furðulega samfélagi sem sagan lýsir.

Ekki er ólíklegt að lesendur spyrji sig hvort bók á borð við Manninn sem hataði börn sé við barna hæfi. Í bókinni er tekið á háalvarlegum, flóknum og umdeildum málefnum en Þórarinn notar húmor og íroníu til að snúa upp á veruleikann og sýna hann í öðru ljósi. Bókin hefur verið tilnefnd til margra verðlauna á Íslandi.

Þórarinn Leifsson (f. 1966) er rithöfundur, myndlistarmaður og myndskreytir, fæddur í Reykjavík. Hann hefur meðal annars starfað sem götulistamaður, grafískur hönnuður og höfundur barna- og unglingabóka. Meðal verka hans eru myndskreytingar við röð ævintýra eftir H.C. Andersen sem kom út víða á Norðurlöndum.