Under sandet – Danmörk

Actionbild Land of Mine (Danmark) - Louis Hofmann & Roland Møller
Eitt er að segja hrífandi þroskasögu einstaklings. Annað er að sviðsetja brot úr mannkynssögunni svo að áhorfandanum finnist hann virkilega á staðnum. Og enn annað er að þora að ögra danskri þjóðarsál svo að undan svíði. Í Under sandet leysir Martin Zandvliet allt ofantalið áreynslulaust af hendi með nánast óbærilega áleitinni frásögn af þýskum hermönnum á táningsaldri, sem voru neyddir til að hreinsa jarðsprengjur við vesturströnd Jótlands eftir seinni heimsstyrjöld. Under sandet er mynd sem hefur óhjákvæmilega djúp áhrif á sýn áhorfandans á mannlegt eðli og danska þjóðarsál.

Þegar seinni heimsstyrjöld líður undir lok þvingar danski herinn hóp þýskra stríðsfanga, sem vart eru komnir af barnsaldri, til að sinna lífshættulegu verkefni – að fjarlægja jarðsprengjur af strönd Danmerkur og gera þær óvirkar. Piltarnir, sem búa yfir ýmist lítilli eða engri þjálfun til verksins, komast brátt að því að stríðinu er hvergi nærri lokið.

Under sandet byggir á sönnum atburðum og segir frá átakanlegu tímabili í sögu eftirstríðsáranna sem hingað til hefur legið í þagnargildi.

Rökstuðningur dómnefndar

Eitt er að segja hrífandi þroskasögu einstaklings. Annað er að sviðsetja brot úr mannkynssögunni svo að áhorfandanum finnist hann virkilega á staðnum. Og enn annað er að þora að ögra danskri þjóðarsál svo að undan svíði. Í Under sandet leysir Martin Zandvliet allt ofantalið áreynslulaust af hendi með nánast óbærilega áleitinni frásögn af þýskum hermönnum á táningsaldri, sem voru neyddir til að hreinsa jarðsprengjur við vesturströnd Jótlands eftir seinni heimsstyrjöld. Under sandet er mynd sem hefur óhjákvæmilega djúp áhrif á sýn áhorfandans á mannlegt eðli og danska þjóðarsál.

Leikstjóri og handritshöfundur – Martin Zandvliet

Martin Zandvliet (f.1971) hóf feril sinn á því að klippa heimildarmyndir. Fyrsta myndin sem hann leikstýrði, Angels of Brooklyn (2002), hlaut Robert-verðlaunin sem besta heimildarmyndin.

Zandvliet kvað sér hljóðs á alþjóðavettvangi með fyrstu mynd sinni í fullri lengd, Applaus (2009). Fyrir hana var Paprika Steen valin besta leikkonan á Karlovy Vary-hátíðinni, sem er ein af mörgum alþjóðlegum viðurkenningum sem myndir Zandvliets hafa hlotið. Önnur mynd hans, Dirch, fjallar um grínistann fræga Dirch Passer. Hún sló í gegn hjá bæði gagnrýnendum og áhorfendum og var ein vinsælasta mynd Danmerkur árið 2011. 

Hin átakanlega stríðssaga Under sandet var opnunarmynd Platform-hluta kvikmyndahátíðarinnar í Toronto árið 2015. Hingað til hefur myndin hlotið alls 23 verðlaun, svo sem Dragon-verðlaunin sem besta norræna myndin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Gautaborg árið 2016. Sögusvið næstu myndar Zandvliets, The Outsider, er Japan eftirstríðsáranna, en hún er á ensku og skartar Jared Leto í aðalhlutverki. 

Sem handritshöfundur hefur Zandvliet tvívegis átt samstarf við Mads Matthiesen (10 timer til paradis, The Model) og næsta verkefni hans, White Dog, er skrifað í samstarfi við Anders August fyrir leikstjórann Asger Leth.

Framleiðandi – Mikael Rieks

Mikael Rieks (f. 1969) útskrifaðist frá fjölmiðla- og sjónvarpsskólanum í Kaupmannahöfn árið 1992. Árið 2003 gekk hann til liðs við Nordisk Film og starfaði þar við heimildarmyndirnar Overcoming eftir Tómas Gislason (2005), Ghosts of Cité Soleil eftir Asger Leth (2006) og fjölskyldumyndina Karlas kabale eftir Charlotte Sachs Bostrup (2007), sem allar hafa hlotið mikið lof.

Árið 2008 stofnaði Rieks sitt eigið fyrirtæki, Koncern Film, sem hefur framleitt myndirnar Applaus og Dircheftir Martin Zandvliet. Árið 2012 tók hann enn upp samstarf við Nordisk Film til að framleiða þriðju kvikmynd Zandvliets, Under sandet.

Á meðal næstu verkefna Rieks fyrir Nordisk Film má nefna myndina White Dog eftir Asger Leth, sem er á ensku og byggir á hugmynd Zandvliets. Um er að ræða dramatíska mynd um tvo bræður, snoðhausa sem búsettir eru í Pittsburgh í Bandaríkjunum skömmu eftir ellefta september 2001. Rieks var valinn sem einn af upprennandi framleiðendum á Cannes-hátíðinni árið 2013.

FRAMLEIÐSLUUPPLÝSINGAR

Titill á frummáli: Under Sandet

Leikstjóri: Martin Zandvliet
Handritshöfundur: Martin Zandvliet

Framleiðandi: Mikael Rieks

Framleiðslufyrirtæki: Nordisk Film Production

Aðalhlutverk: Roland Møller, Mikkel Boe Følsgaard, Louis Hofmann, Joel Basman

Lengd: 101 mínúta

Dreifing innanlands: Nordisk Film

Alþjóðleg dreifing: K5 International

Fulltrúar dómnefndar:

Eva Novrup Redvall, Jacob Wendt Jensen, Per Juul Carlsen