Verðlaunahafi 2005

Per Fly
Ljósmyndari
Per Morten Abrahamsen
Kvikmyndin „Morðið” (Drabet) eftir Per Fly hlýtur kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2005. Kvikmyndin er framleidd af Ib Tardini frá Zentropa Entertainments og handritið er skrifað af Kim Leona, Dorte Høgh, Mogen Rukov og Per Fly.

Morðið var ein af átta kvikmyndum og tveimur heimildarmyndum sem tilnefndar voru til verðlaunanna. Dómnefndarmenn frá öllum Norðurlöndunum rökstuddu val sitt með þeim orðum að Morðið væri „stórfengleg norræn kvikmynd sem fjallar um sígildar spurningar á nútíma tungumáli og eigin forsendum”.

Morðið er síðasta hluti þríleiks eftir Fly sem fjallar um stéttskipt danskt þjóðfélag. Eftir að hafa lýst lágstéttinni í Bekknum (Bænken) og yfirstéttinni í Arfinum (Arven) fjallar Fly nú um millistéttina.

Í Morðinu er fylgst með Carsten (Jesper Christensen) sem er 52 ára gamall kennari. Hann er giftur, á son og er í tygjum við fyrrverandi nemanda sinn, Pil (Beate Bille), sem er öfgafullur vinstrisinni. Nótt eina tekur Pil þátt í árás sem mistekst og lögreglumaður er myrtur. Þegar Pil er handtekin yfirgefur Carsten eiginkonu sína til þess að standa með Pil. En lögreglumaður hefur verið myrtur og tvær fjölskyldur eyðilagðar.

Í aðalhlutverkum eru Jesper Christensen, Beate Bille, Charlotte Fich og Pernilla August. Morðið er framleitt af Zentropa Entertainments og dreift í Danmörku af Nordisk Film, en á alþjóðamarkaði af Trust Film Sales. Alþjóðleg frumsýning myndarinnar var á kvikmyndahátíðinni í San Sebastian og mun hún nú halda ferð sinni um kvikmyndahátíðir heimsins áfram.

Per Fly, Kim Leona og Lars Kjeldgaard eru um þessar mundir að skrifa Sex æviskeið, sex klukkutíma sjónvarpsþáttaröð sem Ib Tardini og Zentropa Entertainments framleiða fyrir danska sjónvarpið, DR.

Rökstuðningur dómnefndar í heild sinni: „Geta hugsjónir réttlætt afbrot? Án þess að fordæma eða hvítþvo persónurnar sýnir Morðið að gjörðir hafa alltaf afleiðingar. Kvikmyndin einblínir á muninn á hugmyndum og raunverulegum aðgerðum. Hún dregur upp mynd af miðaldra manni sem hefur farið villur vegar og verður að taka siðferðislega ákvörðun til þess að geta lifað með sjálfum sér. Myndin er raunsæ, hún segir erfiða sögu á einfaldan hátt, en málamiðlanalaust. Öll vandamál eru sýnd í köldu ljósi morðs sem ekki er hægt að breyta en hægt er að bæta fyrir. Morðið er yfirlætislaus kvikmynd sem fjallar um að bera ábyrgð á gjörðum sínum og fylgja samvisku sinni. Myndin hafnar hentistefnu og fordómum en sýnir þörfina fyrir mannlega þátttöku. Þetta er stórfengleg norræn kvikmynd sem fjallar um sígildar spurningar á nútíma tungumáli og eigin forsendum.”