Verðlaunahafi 2009

Lars von Trier
Danski kvikmyndaleikstjórinn Lars von Trier og framleiðandinn Meta Louise Foldager fá kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2009.

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir vali á verðlaunahafa segir: 
Andkristur eftir Lars von Trier er villt sjónræn veisla en jafnframt yfirgengilega ofbeldisfull kvikmynd sem fjallar um sorg, heift og sekt. Kvikmyndin, sem er í senn óþægileg og hjartnæm, fjallar um þá ringulreið sem skapast í lífi hjóna þegar ungur sonur þeirra deyr. Hún er ástríðufull frásögn af órökrænum öflum tilfinninga og eðlishvata, sem hvorki skynsemi né meðferð fær stjórnað.  Myndin er á mörkum hins innra og ytra veruleika og leitað er í innstu sálarkirna sögupersóna.

Með fullkomnu tjáningarfrelsi  sviðsetur Lars von Trier martröð foreldranna eins nákvæmlega og unnt er, og lýsir  á miskunnarlausan hátt þeirri upplausn sem verður í kynbundnum hlutverkum þeirra. Með fullkominni sviðssetningu,leik og margvíslegri skírskotun í menningarsöguna, setur Andkristur það þekkta úr kvikmyndamáli, og hið sálfræði- og líkamlega í nýtt og ögrandi samhengi.

Úr þessu framsýna verki sprettur fram formlaust myrkur, nístandi einsemd og sársauki sem frumforsenda þess að mannskepnan lifir af. Á þennan hátt, sem vissulega er afar persónulegur, setur Lars von Trier spurningamerki við hentistefnu í  trúmálum og ræðst gegn viðurkenndri rökhugsun og  allsráðandi metnaðargirnd og ýtir áhorfandanum fram á ystu nöf eigin ótta.

Í dómnefnd kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2009 voru Anna Jerslev, lektor (Danmörk), Johanna Grönquist, ritstjóri (Finnland), Sjón, rithöfundur (Ísland), Le LD Nguyen, kvikmyndagagnrýnandi (Noregur) og Eva af Geijerstam, kvikmyndagagnrýnandi (Svíþjóð).

Andkristur var frumsýnd í Cannes 2009 þar sem hún tók þátt í aðalkeppninni.  Charlotte Gainsbourg hlaut verðlaun fyrir besta leik í kvenhlutverki. Kvikmyndin, sem var frumsýnd í Danmörku í maí 2009, hefur síðan verið sýnd á kvikmyndahátíðum um allan heim, s.s.  á Ítalíu, í Póllandi, Frakklandi, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, á Íslandi, í Sviss, Bretlandi, á Spáni, í Þýskalandi og Belgíu. Þann 23. október verður Andkristur frumsýnd í Bandaríkjunum og síðan m.a. í Hollandi og Austurríki.

”Ég þakka með stolti, gleði og auðmýkt Norðurlandaráði,  þann mikla heiður sem myndinni Andkristur er sýnd. Og ég þakka jafnframt öllum þeim djörfu og öflugu fjárfestum, stofnunum og einstaklingum sem tóku þátt í að gera ANDKRIST eftir Lars von Trier að veruleika.Við Norðurlandabúar erum meðal fárra þjóða í heiminum, sem eru svo stöndugar, að ég lít á það sem skyldu sem fylgir þeim forréttindum, að þær rannsaki mörk listarinnar og kyndi undir sköpunarkraftinn.  Óvíða í heiminum er listrænt frelsi jafn mikið og á Norðurlöndum, þar sem hið opinbera og stofnanir á þess vegum veita að auki styrki og styðja listsköpun. Það skiptir öllu fyrir listrænt frelsi okkar og þroska sem skapandi einstaklinga. Ef við gerum þetta ekki á Norðurlöndum, eigum við þau forréttindi ekki skilið.

Ég tel því að við eigum að líta á ákvörðun dómnefndar sem hvatningu til þess að halda áfram á sömu braut, til að nýta aðstöðu okkar og rækta norræna menningararfinn og sjá til þess að við verðum áfram þær þjóðir sem geta og vilja breikka hinn listræna sjóndeildarhring og efla sköpunarkraftinn!” segir Meta Foldager framleiðandi kvikmyndarinnar.

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs eru veitt fyrir kvikmynd sem framleidd er á Norðurlöndum og er þeim skipt að jöfnu milli leikstjóra, handritshöfundar og framleiðanda, og er þannig lögð áhersla á að kvikmyndir sem listgrein eru afurð náinnar samvinnu þessara þriggja aðila. Verðlaunin nema 350.000 danskra króna og verða afhent á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi þann 27. október.

Kvikmyndaverðlaunin eru ein af  verðlaunum Norðurlandaráðs, sem ár hvert veitir verðlaun fyrir bókmenntir, tónlist og náttúru- og umhverfisvernd. Markmið þeirra er að vekja áhuga Norðurlandabúa á norrænum bókmenntum, tungumálum, tónlist og kvikmyndum.

Kvikmyndaverðlaunin voru fyrst veitt árið 2002 á hálfrar aldar  afmæli Norðurlandaráðs og komu þá í hlut  finnska leikstjórans Aki Kaurismäki fyrir  myndina ”MAÐUR ÁN FORTÍÐAR” (Manden uden fortid). Frá 2005 hafa kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs verið veitt árlega og hafa verið veitt  danska leikstjóranum Per Fly (2005) fyrir MORÐIÐ (Drabet), Josef Fares (2006) fyrir sænsku myndina  Zozo, Peter Schønau Fog (2007) fyrir LISTIN AÐ GRÁTA Í KÓR (Kunsten at græse i kor) og í fyrra fékk sænski leikstjórinn Roy Andersson verðlaunin fyrir myndina ÞIÐ SEM LIFIР (Du levende).

Árið 2009 kepptu fimm norrænar kvikmyndir um heiðurinn. Auk Andkrists (Antichrist) voru það; Sauna (Finnland), The amazing truth about Queen Raquela (Ísland), Nord (Noregur) og Ljusår (Svíþjóð).

Hægt er að hlaða niður kynningarmyndum úr verðlaunakvikmyndinni og af verðlaunahöfunum tveimur sem í dag fengu rökstuðning dómnefndar á www.nordiskrådsfilmpris.com, en þar eru einnig myndskeið, lýsingar á öðrum tilnefndum myndum auk ljósmynda og fleira.

Sjónvarpsviðtal við Lars von Trier er aðgengilegt öllum sjónvarpsstöðvum í gegnum DR TV, Nordvision og EBU.

Kvikmyndalisti

Lars von Trier (leikstjóri og handritshöfundur)

  • Andkristur (2009)
  • Direktøren for det hele (The Boss of It All, 2006). Tilnefnd til Golden Shell verðlaunanna – San Sebastián International Film Festival.​​​​​​​
  • Manderlay (2005). Cannes Film Festival, Toronto International Film Festival.
  • De fem benspænd (The Five Obstructions, 2003). Toronto International Film Festival, Sundance Film Festival.​​​​​​​
  • Dogville (2003). Toronto International Film Festival.
  • Dancer in the Dark (2000). Cannes Film Festival.​​​​​​​
  • Idioterne (The Idiots, 1998). Cannes Film Festival.​​​​​​​
  • Riget II (TV) (The Kingdom II, 1997). Venice Film Festival.
  • Breaking the Waves (1996). Cannes Film Festival, Toronto International Film Festival.​​​​​​​
  • Riget I (TV) (The Kingdom I). Karlovy Vary International Film Festival.
  • Europa (1994). Cannes Film Festival.​​​​​​​
  • Medea (Sjónvarp) (1988).
  • Epidemic (1987). Cannes Film Festival.​​​​​​​
  • Forbrydelsens Element (Element of Crime, 1984). Cannes Film Festival.​​​​​​​
  • Befrielsesbilleder (Pictures of Liberation Images of Relief, 1982). Berlin International Film Festival.

 

Meta Louise Foldager (Framleiðandi)

  • Andkristur (2009)
  • Velsignelsen (The Blessing, 2009).
  • Dansinn (Dancers, 2008).
  • Farðu í friði Jamil – Ma salama Jamil (Go with Peace Jamil, 2008).
  • De fortabte sjæles ø (Island of Lost Souls, 2007).
  • AFR (2007).
  • Partus (2007).
  • Direktøren for det hele (The Boss of It All, 2006).
  • Liv (Twinkle, Twinkle little Star, 2006).
  • Nordkraft (Angels in Fast Motion, 2005).
  • Kongekabale (King’s Game, 2004).


Nánari upplýsingar um Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs veitir:

Freddy Neumann, sími +45 2046 7846 eða neumann@mail.dk