Víkingur Ólafsson

Víkingur Ólafsson

Víkingur Ólafsson

Photographer
Ari Magg
Víkingur Ólafsson er á meðal hinna 13 listamanna og hópa sem tilnefndir eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Rökstuðningur:

Víkingur Ólafsson píanóleikari hefur farið sigurför um heiminn með frumleika og sterka tónlistarlega sannfæringu að vopni og hefur markað varanleg spor með hinum þremur hljómplötum sínum, en það eru Philip Glass: Piano Works (2017), Johann Sebastian Bach (2018) og Debussy – Rameau (2020) sem allar komu út á vegum Deutsche Grammophon. Plötur hans særa fram einkennandi og afar persónuleg tónlistartengsl sem teygja sig langt handan við það tímabil sem þær voru teknar upp á. Eða svo vitnað sé í BBC Music Magazine: „Víkingur Ólafsson tekur flutning á tónlist Bachs upp í nýjar og stórfenglegar hæðir. Þetta er tónlistarsköpun sem hrópar á áheyrn.“

Víkingur hefur heimsfrumflutt sex píanókonserta sem íslensk tónskáld hafa samið fyrir hann og hefur einnig starfað náið með Philip Glass, Thomas Adès og John Adams. Á tímum samkomutakmarkana og útgöngubanna árið 2020 kom Víkingur vikulega fram á BBC Radio 4 í útsendingum úr mannlausri Hörpu og náði þannig til fjölda áheyrenda um allan heim.