Växjö-yfirlýsingin: Selurinn og samfélagið

27.03.09 | Yfirlýsing

Upplýsingar

Ráðherrar Danmerkur, Finnlands, Færeyja, Grænlands, Íslands Noregs, Svíþjóðar og Álandseyja, sem fara með málefni fiskveiða, landbúnaðar, matvæla og skógræktar ræddu á ráðherrafundinum þann 26. júní 2008 um verndun og sjálfbæra nýtingu á selastofnunum í Eystrasaltinu og Norður Atlantshafinu, en umræða um sel fer einnig fram innan ESB.

Í framhaldi af alþjóðlegri ráðstefnu um seli og samfélagið sem haldin var í Vasa í Finnlandi dagana 16. – 18. október 2007 leggur Norræna ráðherranefndin um fiskveiðar og nýtingu vatnsauðlinda áherslu  á mikilvægi þess að stuðla að jafnvægi milli friðunar og nýtingar á selastofnum í Eystrasalti og Norður-Atlantshafi.

Norræna ráðherranefndin stóð fyrir ráðstefnunni í Vasa í samstarfi við NAMMCO, WWF og Kvarkenráðið. Markmiðið með ráðstefnunni var að fjalla um hvernig jafnvægi í nýtingu auðlinda og verndun í Eystrasalti og Norður-Atlantshafi yrði best fyrir komið.

Norræna ráðherranefndin

vísar til yfirlýsingar um útsel í Eystrasaltinu sem ráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna sem fara með málefni fiskveiða og fiskeldis, landbúnaðar, matvæla og skógræktar samþykktu 2006,

hefur áhyggjur af ferli sem í gangi er innan ESB vegna ákvörðunar Evrópuþingsins að banna verslun með afurðir sela innan Evrópusambandsins. Ákvörðun sem ógnar staðbundnum matvæla- og handverksiðnaði lítilla samfélaga þar sem selurinn er nýttur.

ítrekar að selastofninn í Eystrasalti og Norður-Atlantshafi er mikilvæg auðlind, sem getur haft mikla þýðingu fyrir norræn strandsamfélög

gerir sér grein fyrir að selastofnar geta svæðisbundið keppt við strandveiðar, sem hefur í för með sér minni afla og skaða á fiskveiðitækjum,

gerir sér einnig grein fyrir jákvæðum áhrifum fitusýru úr sjávarfangi, eins og sel og fiski, á heilsu fólks,

hefur áhyggjur af samfélagslegri efnahagsþróun meðal sumra þjóðarbrota og strandsamfélaga,

ítrekar mikilvægi þess fyrir þjóðarbrot og strandsamfélög að jafnvægi verði náð milli verndunar og nýtingar með gagnkvæmum skilningi og samkomulagi,

ítrekar þörfina fyrir stjórnunaráætlanir fyrir nýtingu sela og lýsir ánægju með það starf sem unnið hefur verið svæðisbundið innan HELCOM og NAMMCO,

er þess fullviss að svæðisbundið stjórnfyrirkomulag á Eystrasaltssvæðinu og á Norður-Atlantshafssvæðinu geti tryggt árangursríka verndun og sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins, sem taki tillit til strandsamfélaganna og þarfa frumbyggjanna,

hvetur NAMMCO og HELCOM til að halda áfram að leggja áherslu á alþjóðlegt samstarf og rannsóknir og sjálfbæra stjórnun selastofnsins,

hvetur NAMMCO til þess, í samstarfi við aðildarríki sem stunda selveiðar, að halda áfram viðleitni til að bæta þær aðferðir sem nýttar eru við selveiðar,

skorar á Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að stuðla að því að jafnvægi náist milli verndar og nýtingar selastofnana í Eystrasalti og á Norður Atlantshafi, sem taki tillit til hagsmuna allra þeirra sem málið varðar.