2011 Gyrðir Elíasson, Ísland: Milli trjánna

2011 Gyrðir Elíasson, Island: Milli trjánna

Um höfundinn

Gyrðir Elíasson ólst upp á Sauðárkróki, en býr nú í Reykjavík. Fyrsta ljóðasafn hans kom út árið 1983. Hann hefur gefið út ljóðasöfn, skáldsögur og smásagnasöfn. Auk þess hefur hann þýtt fjölda bóka, aðallega úr ensku, eins og til að mynda nokkrar bækur eftir William Saroyan og Richard Brautigan. Gyrðir hefur, í fjölda ára, verið talinn einn af fremstu stíllistum íslenskra bókmennta. Hann hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2000 fyrir smásagnasafnið Gula húsið og hefur verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs tvisvar áður, 1991 og 2002.

Um vinningsverkið

„Milli trjánna” er safn 47 nýrra smásagna, sem allar einkennast af áreynslulausum, myndrænum stíl Gyrðis. Efnislega tengist þetta smásagnasafn fyrri skáldsögum og smásögum Gyrðis. Eins og áður einkenna sögurnar óhuggnaður og ráðgátur, einmanaleiki, draumar, ferðalög, barndómsminningar og framtíðarsýn auk töfrandi kímni sem lesendur þekkja frá fyrri verkum höfundar. „Milli trjánna” er áttunda smásagnasafn Gyrðis Elíassonar, sem var tilnefndur til Frank O’Connor bókmenntaverðlaunanna fyrir seinasta verk sitt Steintré.

Milli trjánna

Útgáfa: Uppheimar 

Útgáfuár: 2009

Hér er rökstuðningur dómnefndarinnar

Gyrðir Elíasson hlýtur Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2011 fyrir smásagnasafnið Milli trjánna. Stílhreint og framúrskarandi skáldverk sem lýsir innri og ytri átökum og kallast á við heimsbókmenntirnar.