2019 Jonas Eika, Danmörku: Efter Solen

Vinnare av Nordiska rådets litteraturpris 2019, Jonas Eika, Danmark
Jonas Eika hlýtur verðlaunin fyrir verk sem er markað þeim erfiðleikum sem steðja að heiminum í dag. Arðrán og misrétti, vonlaus tilvera og ofbeldisfull og dimm reynsla eru mikilvægir þættir frásagnarinnar. Þó má greina von í formi möguleika á breytingum.
Rökstuðningur dómnefndar
Handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019 er ungur rithöfundur en smásagnasafn hans Efter Solen kom dómnefndinni á óvart og heillaði hana með hnattrænu sjónarhorni, næmum og myndrænum stíl og getu til að tala inn í pólitískar áskoranir samtímans, án þess þó að lesandanum finnist hann á nokkurn hátt leiddur áfram. Jonas Eika skrifar um veruleika sem lesandinn kannast við, hvort sem sögusviðið er Kaupmannahöfn, Mexíkó eða Nevada – meðal spákaupmanna, heimilislausra drengja eða fólks sem trúir á geimverur. En ljóðrænir töfrar liggja í loftinu. Raunveruleikinn opnar á aðra möguleika, aðrar víddir. Þar bíður okkar eitthvað dásamlegt og fullt vonar sem minnir okkur á að bókmenntirnar eru færar um annað og meira en að spegla það sem við þekkjum nú þegar.