AFTUR - Ísland

Aftur
Photographer
Saga Sigurðardóttir/AFTUR
Endurvinnið eða deyið.

Fatamerkið AFTUR var stofnað árið 1999 með það að leiðarljósi að endurnýta textíl til hönnunar á tímalausum fatnaði út frá hugmyndafræðinni „slow fashion“.

 

Endurvinnið eða deyið. Slagorðið hljómaði eflaust öfgafullt fyrir tuttugu árum en er nú í samræmi við tíðarandann. Jarðarbúar keppast við að kaupa flíkur og fleygja þeim, en einungis 500 grömm af hverju framleiddu tonni af textíl eru endurseld. 

 

AFTUR fer ásamt staðbundnum nytjamörkuðum á flokkunarstöðvar textíls í Evrópu þar sem innflutningur er samræmdur í því skyni að lágmarka umhverfisáhrifin. Á stöðvunum eru flíkurnar flokkaðar í fyrsta og annan flokk eftir söluhæfi þeirra. Í síðasta flokkinn, afgangsflokkinn, fara föt sem dottin eru úr tísku eða eru slitin og teljast ekki söluhæf. Úr þeim flokki velur AFTUR flíkur sem hráefni í tískulínur sínar.

 

Þrátt fyrir að föt AFTUR hafi prýtt sýningarsali um allan heim og klætt margt íslenskt tónlistarfólk eins og Björk og Of Monsters And Men þá snýst framtíðarsýn AFTUR fyrst og fremst um sjálfbæra framleiðslu á staðnum þar sem árstíðabundnar kröfur tískuheimsins verða að víkja fyrir tilliti til umhverfis og mannúðar.