Andrzej Tichý

Andrzej Tichý

Andrzej Tichý

Photographer
Carla Orrego Veliz
Andrzej Tichý: Renheten. Smásagnasafn. Albert Bonniers Förlag, 2020. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Andrzej Tichý (f. 1978) hefur sent frá sér átta bækur. Fólk á jaðri samfélagsins og í lægstu stigum þess er endurtekið viðfangsefni í skrifum Tichýs: börn sem sæta slæmri meðferð, geðræn vandamál og vanlíðan, stéttaskipting og rasismi. Í smásagnasafninu Renheten („Hreinleikinn“, hefur ekki komið út á íslensku) lýsir hann því enn hvernig mannleg örlög hníga stundum óumflýjanlega í ógæfuátt. Sögurnar hrífa lesandann með sér gegnum borgir og úthverfi, íbúðir og götur. Í sögunni „Föreställningar“ („Hugmyndir“) hittir lesandinn fyrir stríðsfréttamann sem á að vera að skrásetja eyðileggingu hersins, en festist þess í stað í hugsunum um það að taka eigið líf og um þau forréttindi sem felist í raun í slíkum gjörningi. Brátt stendur lesandinn svo augliti til auglitis við snoðhaus í strætó, þjóf sem er gómaður og persónu sem drepur æskuvin sinn með hamri eftir að hafa niðurlægt hann í að því er virðist heila eilífð.

Renheten er samanlagt bergmál af röddum fólks hvers líf og dauði ögrar hugmyndinni um „hreinleika“. Áleitinn tónninn skilur lesarann eftir með fjölda spurninga: Hver neyðist til að ganga frá og þrífa upp skítinn? Hver getur keypt sig frá því að skíta út eigin hendur? Hver þykir tala „hreinna“ en aðrir?

 

Tichý lýsir mannlegri eymd jafnt sem nánd með meistaralegum hætti. Það er aðdáunarvert og áhugavert hvernig hann gerir sér aldrei að góðu að staldra við í sora raunsæisins. Þess í stað upphefur Tichý raunveruleikann með því að flétta saman félagslegt raunsæi og tvírætt hugarflæði. Einkum ferst honum vel úr hendi að láta textann flæða milli ólíkra vitundarmiðja og bjaga þannig og undirstrika það sem er raunverulegt eða viðvarandi í hugsunum fólks.

Þar sýnir hann hæfileika í ætt við rithöfundinn Lars Norén og myrkt ljósið minnir á hið siðferðislega ákall í verkum Birgittu Trotzig. Skýrar lýsingar Tichýs á mannlegri reynslu, nándin í stíl hans, innhverf sjálfsskoðun og heilindi án málamiðlana skipa höfundarverki hans í flokk með beittustu bókmenntum samtímans.

Fyrir sína fystu bók, Sex liter luft (2005), hlaut Andrzej Tichý verðlaun sænska dagblaðsins Borås Tidning fyrir frumraun í bókmenntum. Skáldsögurnar Fält (2008) og Kairos (2013) voru báðar tilnefndar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og Eländet (2016) hlaut tilnefningu til hinna sænsku August-verðlauna.