Aurora – Finnland

Billede fra “Aurora” (Finland) - Mimosa Willamo og Amir Escandari
Photographer
Dionysos Films
Finnska kvikmyndin „Aurora“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2019

Kvöld eitt við pylsuvagn í finnska Lapplandi kynnist hin partýglaða og skuldbindingafælna Aurora írönskum manni að nafni Darian. Darian þarf að giftast finnskri konu svo að hann og dóttir hans fái hæli í landinu. Aurora hyggur á flutninga til Noregs, burt frá ömurlegri tilveru sinni, og hafnar því umleitunum Darians. Þegar hún hefur hitt hina indælu dóttur hans fellst hún þó á að hjálpa feðginunum. Aurora kynnir Darian fyrir hverri konunni á fætur annarri en verður um leið æ nánari honum. Þegar hin fullkomna verðandi eiginkona kemur til skjalanna standa Darian og Aurora frammi fyrir tveimur afarkostum: að láta sem þau séu hamingjusöm eða hætta loksins að flýja.

Rökstuðningur dómnefndar

Um alla Evrópu notfæra öfgahægriöfl sér ótta fólks við straum innflytjenda til að ná uppgangi. Í því andrúmslofti er Aurora, hjartnæm samtímasaga um sársauka og gleði og frumraun leikstjórans og handritshöfundarins Miiu Tervo, kærkomið mótefni við vitsmunakreppu. Hér er á ferð saga af breyskum einstaklingum sem berjast fyrir tilveru sinni í norrænu borgarumhverfi, sögð af mannúð og hluttekningu, á jafningjagrundvelli og án umvandana.

Handritshöfundur/leikstjóri – Miia Tervo

Miia Tervo (1980) er handritshöfundur og leikstjóri frá finnska Lapplandi. Stuttmyndir hennar hafa verið sýndar víða um heim og hlotið fjölda viðurkenninga. Lumikko (The Little Snow Animal) hlaut tilnefningu á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum 2010 og verðlaun sem besta mynd nemanda á hátíðinni í Palm Springs, Santra ja puhuvat puut (Santra and the Talking Trees) hlaut heiðursviðurkenningu á Nordisk Panorama á IDFA og Pieniä kömpelöitä hellyydenosoituksia (Clumsy Little Acts of Tenderness) hlaut verðlaun fyrir besta handrit á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni Heart of Gold í Ástralíu og áhorfendaverðlaun á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Vevey 2015.


Aurora er fyrsta mynd hennar í fullri lengd. Hún var opnunarmynd kvikmyndahátíðarinnar í Gautaborg 2019 og sýnd á fjölda annarra hátíða, svo sem South by Southwest í Austin, Oslo Pix í Ósló og á kvikmyndahátíðinni í Edinborg. Aurora var tilnefnd til verðlaunanna Eurimages Audentia.

Framleiðandi – Max Malka

Max Malka (1986) starfar sem framleiðandi hjá Dionysos Film í Helsinki.

Hún lauk meistaragráðu í framleiðslu kvikmynda frá Aalto-háskóla í Finnlandi. Hún kynntist leikstjóranum Miiu Tervo í kvikmyndanáminu og vann með henni að stuttmyndinni Lumikko (Little Snow Animal) (2009).

Malka framleiddi meðal annars finnsku barnamyndina Tatu & Patu, sem var þriðja söluhæsta mynd Finnlands árið 2016, og vefþáttaröðina Nörtti: Dragonslayer666 (Nerd: Dragonslayer666). Þáttaröðin náði gífurlegum vinsældum meðal ungs fólks árið 2017 og hlaut finnsku sjónvarpsverðlaunin í flokki sjónvarpsþáttaraða fyrir börn og ungmenni.

Fyrsta mynd Tervo í fullri lengd, Aurora, hefur verið sýnd á fjölda alþjóðlegra kvikmyndahátíða.

Framleiðsluupplýsingar

Titill á frummáli: Aurora

Leikstjórn: Miia Tervo

Handrit: Miia Tervo

Aðalhlutverk: Mimosa Willamo, Amir Escandari

Framleiðandi: Max Malka

Framleiðslufyrirtæki: Dionysos Films

Lengd: 106 mínútur

Dreifing innanlands: Nordisk Film

Alþjóðleg dreifing: Level K