Berit Opheim

Berit Opheim
Photographer
Per Finne
Berit Opheim er á meðal hinna 13 sem tilnefndir eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Rökstuðningur:

Berit Opheim frá Voss í Noregi er í hópi virtustu þjóðlagasöngvara heimalands síns. Með forvitinni og opinni afstöðu til fjölbreytilegra tónlistartegunda hefur tjáning hennar verið í stöðugri þróun, meðal annars gegnum samtímatónlist, snemmbarokk, miðaldatónlist og spuna. Hún er þekkt fyrir einbeitta miðlun, hlýja rödd og mikla hæfni. Opheim hefur um margra ára skeið verið sérlega virkur sólóflytjandi og frumflutt fjölda nýrra tónverka. Hún er fyrrum meðlimur í Trio Mediæval og hefur átt í samstarfi við fjölda tónlistarfólks og tónlistarhópa. Hún söng Næturdrottninguna og Papagenu í þjóðlagauppsetningu á Töfraflautunni og hefur unnið Landskappleiken í Noregi í fjórgang. Einnig hefur hún gefið út fjölda sólóplatna og sungið inn á um 50 plötur ásamt öðru listafólki. Opheim er dósent í tónlist og hefur kennt við Ole Bull-akademíuna í Voss, Grieg-akademíuna í Björgvin og við norska tónlistarháskólann í Ósló. Hún lítur á kennsluna sem mikilvægan hluta starfs síns og brennur fyrir því að miðla þekkingu sinni til komandi kynslóða. Opheim er mikilvægur innblástur og frumkvöðull í norsku tónlistarlífi og mun halda áfram að heilla áheyrendur um ókomin ár.