Elfa Rún Kristinsdóttir

Elfa Rún Kristinsdóttir
Ljósmyndari
Tim Mintiens
Fiðluleikari

Íslenski fiðluleikarinn Elfa Rún Kristinsdóttir (fædd 1985) hlaut í fyrsta sinn viðurkenningu á alþjóðavettvangi árið 2006 þegar hún vann aðalverðlaunin, verðlaun áheyrenda og verðlaun fyrir að vera yngsta keppandinn í úrslitum í alþjóðlegu Bach-keppninni í Leipzig. Sama ár hlaut hún Pro Europe Incentive-verðlaunin frá European Foundation for Culture. Hún hefur jafnframt komist í úrslit við úthlutun norsku einleikaraverðlaunanna (Den norske solistpris) og var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem flytjandi ársins árið 2012.

Elfa Rún er fædd á Íslandi en stundaði nám í Þýskalandi, fyrst hjá Rainer Kussmaul í Freiburg og síðar hjá Carolin Widmann í Leipzig. Árið 2006 varð hún meðlimur sveitarinnar Solistenensemble Kaleidoskop í Berlín, sem þá var nýstofnuð, og árið 2008 var hún útnefnd konsertmeistari sveitarinnar. Áhugi hennar á gamalli tónlist leiddi til þess að hún fékk inngöngu í Akademie für Alte Musik Berlin, þar sem hún kemur oft fram sem gestaeinleikari og konsertmeistari. Hún leikur reglulega á tónleikum með leiklistarívafi og á leiksýningum, meðal annars með David Marton, Nico and the Navigators og Sashe Waltz & Guests, og hún tekur jafnframt þátt í tónlistarviðburðum á borð við Stargaze.

Nýskapandi samblöndun hennar á tónlist frá fyrri öldum og nútíma tilraunatónlist hefur komið Elfu Rún í fremstu röð ungra tónlistarmanna á Íslandi um þessar mundir.