Elfa Rún Kristinsdóttir

Elfa Rún Kristinsdóttir
Photographer
Antje Taiga
Elfa Rún Kristinsdóttir er á meðal hinna 13 sem tilnefndir eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Rökstuðningur:

Elfa Rún Kristinsdóttir fiðluleikari hefur getið sér gott orð fyrir tjáningarríkan og afburðagóðan leik þar sem meistaralegt handbragð og tækni mæta náttúrulegum, fjörlegum og fallegum tóni. Elfa Rún stundaði fiðlunám hjá Rainer Kussmaul í Freiburg og hjá Carolin Widmann í Leipzig. Hún vakti fyrst athygli á alþjóðavísu árið 2006 þegar hún vann til aðalverðlauna, áheyrendaverðlauna og verðlauna sem yngsti úrslitakeppandi í alþjóðlegu Bach-keppninni í Leipzig. Ferill Elfu hefur verið fjölbreyttur. Henni lætur jafnvel að leika á nútímafiðlu og barokkfiðlu og hún hefur bæði fengist við einleik, kammertónlist og það að leiða stærri hljómsveitir. Elfa hefur spilað víða og hlotið lof um allan heim sem einleikari á tónleikum og með hljómsveitum á borð við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Les Siècles og Hamburger Symphoniker. Einnig hefur hún komið fram sem einleikari og leikið kammertónlist á fjölda hátíða víða um heim, þar á meðal Bachfest í Leipzig og Festival Oude Muziek í Utrecht.