Handhafi Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2013
Skáldsagan „Karikko“ (WSOY 2012) eftir rithöfundinn Seita Vuorela og myndskreytinn Jani Ikonen er fyrsta verkið sem hlýtur ný Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
Í finnskum káputexta skáldsögunnar „Karikko“ (Blindsker) er verkið sagt vera bæði fyrir unga og fullorðna.
Seita Vuorela (áður Parkkola, fædd 1971) býr í Helsinki þar sem hún starfar sem rithöfundur og ljósmyndari. Hún kennir jafnframt skapandi skrif. Skáldsögur hennar fyrir ungmenni hafa verið þýddar á mörg tungumál, meðal annars sænsku, ensku, frönsku, ítölsku og þýsku.
Kápumynd Jani Ikonens hefur verið lýst sem heillandi. Í bókinni eru jafnframt svarthvítar teikningar Ikonens sem minna á ljósmyndir og sem hægt er að túlka sem myndir af landslagi sálar.
Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs nema 350 þúsundum danskra króna.
Rökstuðningur dómnefndar
Frásögnin teygir sig víða og er byggð upp eins og mósaík. Sögð er saga af bræðrum sem snertir lesandann og tekur á alveg fram að síðustu setningu. Stíllinn er sérstakur og vefur saman þjóðtrú, goðsögn og frásagnarhefð. Skáldsagan fjallar um sorg og er full af táknmyndum. Leit ungu manneskjunnar fer fram á mörkum bernsku og fullorðinsára, lands og vatns, draums og raunveruleika, lífs og dauða. Myndskreytirinn tvinnar í svarthvítum myndum sínum saman skáldlega grafík og ljósmyndatækni og styrkir þannig seiðandi heildaráhrifin.