Seita Vuorela og Jani Ikonen (myndir)

Seita Vuorela
Photographer
WSOY
Seita Vuorela og Jani Ikonen (myndir) Karikko (Blindsker), 2012

Karikko (Blindsker) skáldsaga Seita Vuorela er sjálfri sér nóg á góðan hátt og meðvituð um eiginn töframátt. Bókin er ætluð öllum sem ekki vilja auðmelta lestrarupplifun. Í Finnlandi er baksíðutexti á bókinni þar sem hún er skilgreind sem verk fyrir unglinga og fullorðna. Aðspurð um nýjustu bækur sínar segir Viorela hins vegar að að bækurnar séu barnabækur. Hún telur að höfundar barnabóka nútímans reyni að hafa áhrif á ungt fólk með því að halda að þeir viti fyrirfram hverjar þarfir og draumar þess séu.

Vuorela nýtir sér alþjóðlega tískubylgju fantasíubókmennta og reynir með henni að endurnýja þessa gerð bókmennta á sinn eigin metnaðarfulla hátt. Í stílnum leitar hún fanga í töfra-raunsæisbókmenntum og dystópíu sem nýtur mikilla vinsælda í dag, en Karikko inniheldur einnig hina sígildu fléttu unglingaskáldsagna: frelsisleit ungrar persónu og uppgötvun eigin leiðar í lífinu.

Umgjörð skáldsögunnar er tjaldsvæði í niðurníðslu og síló, ásamt þeim sorglegu atburðum sem gerst hafa þar og koma svo fram í lok sögunnar.

Í miðju atburða er fjölskylda, tveir bræður, Mitja sem er fjórtán ára og Waldemar sem er tveimur árum eldri, skyldleiki þeirra en jafnframt sorg, uppgjöf og sök. Mitja kynnist nokkrum strákum sem vafra um í kringum tjaldstæðið, þeir eru útskúfaðir ræflar sem á undarlegan hátt telja sig vera flækta í net Stúlkunnar, hennar sem býr á Hotel Horisont. Vuorela byggir fléttuna upp smám saman líkt og mósaík, með því að horfa til baka, með tilvísunum og lausum bútum. Frásagnartæknin ögrar jafnt og launar lesandanum.

Í Karikko eru hugleiðingar um einstaklinginn og samfélagið líkt og er að finna í Lord of the Flies eftirWilliam Golding, Barneregjeringen eftir Alexander Mellis og The Hunger Games eftir Suzanne Collins.

Í fléttunni er persónuslýsing á fullorðnum og þá sérstaklega foreldrunum sérlega vel gerð. Þeir eru sýndir sem nánast gegnsæjar og viljalausar verur, sem hafa ekki lengur raunverulegt vald og enga snertifleti við börn sín.

Vuorela notar einnig gamlar goðsagnir. T.d. byggir „ungfrú dauðans“ á grískum goðsögnum og finnskri þjóðtrú. Að auki notar höfundur klassísk ævintýri, sér í lagi „Villtu svanina“ eftir H.C. Andersen.

Kápumynd Jani Ikonen er eftirtektarverð. Inni í bókinni eru einnig svart/hvítar teikningar eftir Ikonen, en þær má túlka sem myndir af sálarlandslagi.

Seita Vuorela (áður Parkkola f. 1971) er búsett í Helsinki og starfar sem rithöfundur og ljósmyndari. Hún kennir einnig skapandi skrif.

Unglingabækur hennar hafa verið þýddar á mörg tungumál, m.a. sænsku, ensku, frönsku, ítölsku og þýsku.