Hugi Guðmundsson

Ljósmyndari
Ari Magg
Hugi Guðmundsson tónskáld er tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir verkið Guðspjall Maríu (2022).

Rökstuðningur

Hugi Guðmundsson (f. 1977) lauk meistaragráðu frá Konunglega tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn árið 2005. Höfundarverk Huga spannar allt frá einleiksverkum til verka fyrir sinfóníuhljómsveitir en þekktastur er hann fyrir kórtónlist sína, sem er flutt víða um heim og er fastur liður á efnisskrám margra íslenska kóra. 

 

Undanfarin ár hefur hann fengist við umfangsmeiri verk í æ meiri mæli, þar á meðal konserta, hljómsveitarverk, óperur og óratóríur.

 

Óratórían Guðspjall Maríu eftir Huga var heimsfrumflutt á Listahátíð í Reykjavík árið 2022. Í verkinu er lífi blásið í löngu gleymt guðspjall sem ögrar viðteknum hugmyndum um hlutverk Maríu Magdalenu. 

 

Líbrettóið sömdu Nila Parly og Niels Brunse, en í því er texta úr guðspjallinu fléttað saman við texta eftir kvenguðfræðinga fyrri alda og frumsamda kórþætti. Þar er Maríu Magdalenu lýst sem postula með jafnt vægi á við karlkyns félaga hennar og hlustendum er boðið að hlýða á rödd sem sagan hefur þaggað niður. 

 

Þetta er frásögn af kúgun kvenna og feðraveldinu, saga sem mikilvægt er að segja.