Hugi Guðmundsson, Hilmar Jensson, Sverrir Guðjónsson, Matthias Hemstock, Joshue Ott

Solar5
„Solar5: Journey to the Center of Sound“ var samið og flutt af Huga Guðmundssyni, Hilmari Jenssyni, Sverri Guðjónssyni og Matthíasi Hemstock með gagnvirkum sjónlistaverkum eftir Joshue Ott.

 

Solar5: Journey to the Center of Sound“ var samið og flutt af Huga Guðmundssyni, Hilmari Jenssyni, Sverri Guðjónssyni og Matthíasi Hemstock með gagnvirkum sjónlistaverkum eftir Joshue Ott. Í verkinu eru mörkin milli samins efnis og tónsmíða í rauntíma könnuð, mörkin milli þess að semja og þess að flytja og svo mörkin milli flytjanda og áheyranda. Höfundarnir hafa mjög ólíkan bakgrunn og vinna á ólíkum sviðum tónlistarinnar (djass, klassík, spuni o.fl. ). Þeir unnu saman í tvö ár að Solar5 og söfnuðu saman hljóðum frá ýmsum stöðum þar með talið heitum hverum, sandi, steinum, röddum undir vatni og fleira. Efnið var síðan notað sem grunnur að tónsmíðinni. Verkið er ferðalag í gegnum mismunandi lög og er flutt á fimm mismunandi stöðum í húsinu. Flytjendur færa sig um set á milli þessara fimm mismunandi staða og hægt og rólega færa þeir líf í hvern og einn stað þar til allir staðirnir eru fullir af lífi. Í lok flutningsins berst áfram hljómur frá hverjum stað og er áhorfendum boðið að taka þátt í gegnum hreyfiskynjara, iPad, heimatilbúin hljóðfæri og fleira sem breytir verkinu í gagnvirka innsetningu. Solar5 er dýnamískt tónverk og við frumflutning þess var það útsett fyrir tónlistarhúsið Hörpu þar sem innblástur var fenginn úr hinum stórkostlega glerhjúp hússins. Flutningurinn og sköpun verksins var möguleg fyrir tilstilli Styrktarsjóðs SUT og Ruthar Hermanns, listamannalauna og 365 miðla.