Jakob Wegelius

Jakob Wegelius
Ljósmyndari
Lena Sjöberg
Jakob Wegelius: Mördarens apa. Skáldsaga, Bonnier Carlsen, 2014.

Sjómannssaga, glæpasaga eða ævintýri? Mördarens apa er allt þetta og meira til.

Morð er framið í hafnarhverfi Lissabon og sjómaðurinn Koskela er ákærður. Vélstjórinn hans, górillan Sally Jones, er sannfærð um sakleysi vinar síns og tekst á hendur stórkostlega ævintýraför yfir heimshöfin til að hreinsa nafn hans.

Mördarens apa er óvanalega bitastæð saga, sögð af sjaldséðum krafti og frásagnargleði. Sögumaður er górillan Sally Jones, sem vélritar sögu sína. Sögusviðið er ansi víðfeðmt og nær frá hafnarhverfum og sjómannslífi inn í hirð indversks aðalsmanns. Innan um smyglleiðangra og morðákærur fær lesandinn einnig vænan skammt af sögu fyrstu ára 20. aldarinnar, einkum tækninýjunga þess tíma. En jafnvel þótt þetta svimandi ævintýri sé morðgáta á yfirborðinu fjallar það í raun um vináttu, einmanaleika og samkennd.

Þetta er óvenju þykkur doðrantur fyrir tíu ára lesendur en fyrir vikið getur lesandinn sökkt sér ofan í ævintýrið. Og það mun hann að öllum líkindum vilja. Þrátt fyrir umfangið – hvorki meira né minna en 618 blaðsíður – er sagan þétt, hnitmiðuð og spennandi. Jakob Wegelius glæðir hana lífi með nákvæmum teikningum og stafaflúri í svarthvítu. Stíllinn á myndskreytingunum minnir á myndir frá fyrri hluta 20. aldar, sem eykur á þá tilfinningu að lesandinn gangi inn í annan tíma.

Jakob Wegelius er rithöfundur og myndskreytir. Hann hefur einkum skrifað fyrir börn og fyrsta verk hans, Spionerna i Oreborg (1994), kom út þegar hann var enn í námi. Bækur hans hafa verið þýddar á tíu tungumál og hann hefur hlotið ýmis verðlaun, til dæmis Heffaklump-verðlaun dagblaðsins Expressen (1999) og Maria Gripe-verðlaunin (2008), sem veitt eru af forlaginu Bonnier Carlsen.

Þau verk Wegeliusar sem hafa vakið mesta athygli eru bækurnar tvær um górilluna Sally Jones. Mördarens apa er sjálfstætt framhald teiknimyndaskáldsögunnar Legenden om Sally Jones. Í fyrri bókinni fylgdist lesandinn með uppvexti Sallyar í afrískum regnskógi, kynntist því hvernig hún var tekin til fanga af veiðiþjófum og er síðar eftirlýst sem meistaraþjófur í Istanbúl áður en hún gerist vélstjóri á sama báti og Koskela. Jakob Wegelius hlaut hin virtu August-verðlaun fyrir báðar bækurnar, sem hlýtur að teljast óvanalegt. Árið 2008 hlaut hann verðlaunin fyrir Legenden om Sally Jones og 2014 fyrir Mördarens apa.