Johan Lindström
Rökstuðningur:
Johan Lindström hefur verið lýst sem töframanni tónlistarinnar. Hann starfar á breiðum listrænum grundvelli sem tónlistarflytjandi, tónskáld, útsetjari og framleiðandi. Hér er á ferð persónulegur tónlistarmaður sem setur mark sitt á þau verkefni sem hann kemur að. Hann sameinar áhrif úr gerólíkum áttum með einstökum hætti svo að úr verður síkvik og músíkölsk heild í fremstu röð.
Hann er á meðal eftirsóttustu tónlistarmanna og framleiðenda Svíþjóðar og er meðal annars þekktur úr hinni margverðlaunuðu sveit Tonbruket og fyrir samstarf sitt við listafólk á borð við Rebecku Törnqvist, Elvis Costello, Ane Brun, Norrbotten Big Band, Hljómsveit sænska hersins, Nils Petter Molvaer, Freddie Wadling, Totta Näslund og Önnu Ternheim.
Ásamt hinni stjörnum prýddu sveit sinni „Johan Lindström Septett“ (Johan Lindström – gítar, pedal steel-gítar, Jonas Kullhammar – saxófónn, Per Texas Johansson – saxófónn, klarinett, Mats Äleklint – básúna, Jesper Nordenström – hljómborð, Thorbjörn Zetterberg – kontrabassi, Konrad Agnas – trommur ) hefur hann gefið út tvær plötur sem hlotið hafa lof: „Music for Empty Halls“ (2018) og „On the Asylum“ (2021). Hópurinn hefur bæði hlotið sænsku Grammis-verðlaunin og Jazzkatt-verðlaun sænska ríkisútvarpsins. Með fjölbreytilegum tónsmíðum sem ómögulegt er að staðsetja í tíma eða rúmi laðar Johan Lindström af miklu næmi fram hið besta í hverjum og einum tónlistarmanni. Johan Lindström er brautryðjandi í listinni og skapar tónlist sem hefur sig svo langt upp yfir hefðbundna flokkun í tónlistargreinar að allir merkimiðar verða merkingarlausir.