Lise Davidsen

Lise Davidsen
Photographer
Ole-Jørgen Bratland
Lise Davidsen er á meðal þeirra 13 listamanna og hópa sem tilnefndir eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2017.

Lise Davidsen hefur áður sýnt að hún býr yfir óvenju sterkri tónlistargáfu og heilindum og auðmýkt í flutningi. Ljóðræn og dramatísk sópranrödd hennar hefur breidd að umfangi og í tjáningu sem snertir við áheyrendum þvert á tónlistargreinar.

Árið 2015 hlaut hún Birgit Nilsson-verðlaunin og áheyrendaverðlaun á Operalia-samkeppninni í Lundúnum, og fyrstu verðlaun í Belvedere-samkeppninni og alþjóðlegri tónlistarkeppni Sonju Noregsdrottningar. Auk þess að syngja við óperuhúsin í m.a. Frankfurt, Ósló og Zürich og á Glyndebourne-hátíðinni, og einsöng í Royal Festival Hall, Concertgebouw og Wigmore Hall, hefur Davidsen sungið nýja norræna tónlist eftir John Frandsen og Per Nørgård inn á upptökur. Í síðarnefnda verkinu söng hún einsöng ásamt Det Norske Solistkor. Það er erfitt að hugsa sér betra dæmi um tónlistarflytjanda í fremstu röð. Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs ættu að gægjast inn í framtíðina og vekja athygli á einstökum listamanni við upphaf ferils síns, söngkonu sem margir hafa sagt arftaka norrænna stjarna á borð við Birgit Nilsson og Kirsten Flagstad.