Louder Than Bombs – Noregur

Actionbild från Louder Than Bombs  (Norge) Jesse Eisenberg och Devin Druid
Photographer
Motlys
Louder Than Bombs eftir Joachim Trier er athugun á sorginni, eða nánar til tekið því hvernig hún birtist hjá föður og tveimur sonum hans, þremur árum eftir andlát móðurinnar. Móðirin hefur skilið eftir sig litla fjölskyldu sem tengist ástríkum en flóknum böndum. Feðgarnir reyna af öllum mætti að ná hver til annars og að tala saman um sorgina og eigin tilveru.

Joachim Trier og handritshöfundurinn Eskil Vogt, sem áður hafa átt gott samstarf sín á milli, lýsa þessum aðstæðum af stillingu, með samfelldu flæði, frumlegu myndmáli og umhyggju fyrir ólíku tilfinningalegu ástandi persónanna. Trier lætur sér annt um persónur sínar. Og í innsta kjarna sögunnar eru minningar, þrá og söknuður eftir látinni konu.

Ágrip

Þremur árum eftir ótímabæran dauða ljósmyndarans Isabelle Reed stendur til að setja upp sýningu á verkum hennar. Elsti sonur hennar, Jonah, er því tilneyddur að snúa aftur á heimili fjölskyldunnar og verja meiri tíma með föður sínum, Gene, og yngri bróðurnum, Conrad, sem hann hefur ekki hitt árum saman. Þegar þeir eru allir undir sama þaki á ný leggur Gene sig fram um að tengjast sonum sínum. Það reynist þó hægara sagt en gert að sætta mótsagnakenndar tilfinningar feðganna gagnvart konu sem þeir minnast með afar ólíkum hætti.

Rökstuðningur dómnefndar

Louder Than Bombs eftir Joachim Trier er athugun á sorginni, eða nánar til tekið því hvernig hún birtist hjá föður og tveimur sonum hans, þremur árum eftir andlát móðurinnar. Móðirin hefur skilið eftir sig litla fjölskyldu sem tengist ástríkum en flóknum böndum. Feðgarnir reyna af öllum mætti að ná hver til annars og að tala saman um sorgina og eigin tilveru.

Joachim Trier og handritshöfundurinn Eskil Vogt, sem áður hafa átt gott samstarf sín á milli, lýsa þessum aðstæðum af stillingu, með samfelldu flæði, frumlegu myndmáli og umhyggju fyrir ólíku tilfinningalegu ástandi persónanna. Trier lætur sér annt um persónur sínar. Og í innsta kjarna sögunnar eru minningar, þrá og söknuður eftir látinni konu.

Handritshöfundur / leikstjóri – Joachim Trier

Joachim Trier (f. 1974) nam við Evrópska kvikmyndaskólann í Danmörku og stundaði að því loknu starfsnám við National Film and Television School í Bretlandi, þar sem hann gerði fjölda stuttmynda sem unnu til ýmissa verðlauna. Trier öðlaðist skjóta heimsfrægð eftir fyrstu mynd sína í fullri lengd, Reprise (2006), sem fór um allan heim og hlaut rúmlega 20 viðurkenningar, m.a. fyrir bestu leikstjórn á kvikmyndahátíðinni í Karlovy Vary og Discovery-verðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Toronto. Önnur kvikmynd hans, Oslo, 31. august, var valin til sýninga í flokknum Un Certain Regard á hátíðinni í Cannes 2011 og hlaut verðlaun fyrir bestu leikstjórn á Amanda-verðlaunahátíðinni í Noregi árið 2012.

Louder Than Bombs, fyrsta mynd hans á ensku, var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2015 og hlaut Bronshestinn fyrir bestu myndina á kvikmyndahátíðinni í Stokkhólmi. Thelma (vinnutitill), næsta mynd Triers á norsku, segir sögu ungrar konu sem enn hefur ekki áttað sig á því að hún býr yfir ógnvænlegu afli.

Trier er nú tilnefndur til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs í þriðja sinn fyrir Louder Than Bombs, en hin skiptin voru fyrir Reprise (2007) og Oslo, 31. august (2011).

Handritshöfundur – Eskil Vogt

Eskil Vogt (f. 1974) nam kvikmyndaleikstjórn við franska kvikmyndaskólann La Fémis. Fyrsta stuttmynd hans í Frakklandi, Une étreinte, vann til Prix UIP-verðlaunanna á stuttmyndahátíðinni í Grimstad í Noregi 2003, og Les étrangers vann til European Jury-verðlaunanna á Premiers Plans-hátíðinni í Angers í Frakklandi árið 2005. 

Blind, fyrsta kvikmyndin í fullri lengd sem Vogt skrifaði handrit að og leikstýrði, var frumsýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni árið 2014, þar sem hún hlaut verðlaun fyrir besta handrit í flokki alþjóðlegra mynda. Myndin hlaut yfir tug annarra verðlauna, svo sem New Talent Grand PIX á CPH PIX í Kaupmannahöfn, og fjögur Amanda-verðlaun, m.a. fyrir bestu leikstjórn. Blind var tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2014.  Sem handritshöfundur hefur Vogt komið að öllum myndum Joachims Trier, bæði stuttmyndum og myndum í fullri lengd, svo sem Reprise, Oslo, 31. august og Louder Than Bombs. Vogt kom að handritaskrifum fyrir Thelma, væntanlega spennumynd Triers.

Framleiðandi – Thomas Robsahm

Thomas Robsahm (f. 1964) er margverðlaunaður kvikmyndaframleiðandi, leikstjóri, tónlistarmaður og fyrrum leikari. Hann leikstýrði fyrstu mynd sinni, Svarte pantere (1992), að loknum ferli sem ungur leikari. Síðan hefur hann leikstýrt bæði kvikmyndum og heimildarmyndum, svo sem S.O.S., sem hlaut Amanda-verðlaun sem besta myndin 2000, og Moderne slaveri, sem hlaut Amanda-verðlaun sem besta heimildarmyndin 2009. Síðasta leikstjórnarverkefni hans var heimildarþáttaröðin Punx (2015), fyrir norska ríkissjónvarpið.

Robsahm hefur starfað sem framleiðandi ásamt leikstjórum á borð við Margreth Olin, Solveig Melkeraaen og Jannicke Systad Jacobsen. Louder Than Bombs, sem var valin til að keppa á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2015, var fyrsta samstarfsverkefni þeirra Joachims Trier. Robsahm vinnur nú að framleiðslu spennumyndarinnar Thelma fyrir framleiðslufyrirtækið Motlys. Robsahm gekk til liðs við Motlys árið 2013 eftir fjögurra ára starf hjá Norrænu kvikmyndamiðstöðinni.

FRAMLEIÐSLUUPPLÝSINGAR

Titill á frummáli: Louder Than Bombs

Leikstjóri: Joachim Trier

Handritshöfundar: Eskil Vogt, Joachim Trier

Framleiðandi: Thomas Robsahm

Framleiðslufyrirtæki: Motlys

Aðalhlutverk: Gabriel Byrne, Isabelle Huppert, Jesse Eisenberg, Devin Druid

Lengd: 109 mínútur

Dreifing innanlands: SF Norge

Alþjóðleg dreifing: Memento Films International

Fulltrúar dómnefndar

Britt Sørensen, Kalle Løchen, Silje Riise Næss