Maija Kauhanen

Maija Kauhanen
Ljósmyndari
Annti Kokkola
Maija Kauhanen er á meðal hinna 13 sem tilnefndir eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Rökstuðningur:

Þjóðlagatónlistarkonan, söngkonan, lagahöfundurinn og kantele-leikarinn Maija Kauhanen er afar öflug og fjölhæf einnar konu hljómsveit sem hefur á stuttum tíma skapað sér farsælan feril á alþjóðlegum vettvangi. Listrænn grundvöllur Kauhanen er tónlistarhefð Karelíu í Finnlandi, bæði hvað snertir hljóðfæraval og spila- og söngtækni.

Frásagnir í söngtextum leika mikilvægt hlutverk í sterkri túlkun hennar, þar sem örlög kvenna á ýmsum aldri eru fyrirferðarmikið viðfangsefni. Textarnir segja frá erfiðleikum í samböndum, frá heimilisofbeldi og ótta, en einnig rúmast þar gleði, huggun og von.

Fyrsta plata Maiju Kauhanen, Raivopyörä („Reiðihjólið“) frá 2017, fékk afar góða dóma og varð upphafið að farsælum ferli sem náð hefur til yfir 30 landa. Raivopyörä hlaut fjölda virtra verðlauna í Finnlandi, meðal annars Emma-verðlaunin fyrir bestu þjóðlagaplötuna.  Með nýjustu plötu Kauhanen, Menneet („Hin brottgengnu“) frá 2022, skilar persónuleg nálgun hennar sér í enn sterkari heildarmynd tónlistarsköpunar en áður.

Þegar hún kemur fram á tónleikum birtist hið hefðbundna hljóðfæri kantele í samhengi nýstárlegrar flutningstækni og með furðumörgum ásláttarhljóðfærum, ýmiss konar bjöllum og tilraunakenndum hljóðheimum. Úr verður einnar konu hljómsveit sem leiðir óhikað saman ólík tímaskeið, tæknilegar aðferðir og stílbrögð og heillar áhorfendur hvarvetna.