Mette Hegnhøj

Mette Hegnhøj
Mette Hegnhøj: Ella er mit navn vil du købe det? Æske med løsblade og poetsne. Minnispunktar, ljóð og myndskreytingar, Forlaget Jensen & Dalgaard, 2014.

Brúnni, kaffiblettóttri pappaöskju er haldið saman með gúmmíteygju sem á er skrifað snoturri rithönd: Varúð – Inniheldur ljóðasnjó. Fyrir utan ljóðasnjóinn eru í öskjunni 138 blöð sem skrifað hefur verið á með gamalli ritvél.

Textann skrifaði Ella sem er 11–12 ára. Í stuttum færslum fjallar hún um eigin sorg, yfir því að vera ein í fornbókaverslun þar sem móðir hennar er upptekin með nýjum manni, en líka yfir því að hafa misst köttinn Kattekismus, sem fylgt hafði dánarbúi sem komið hafði í verslunina einn góðan veðurdag. Ellu grunar að mamma hennar hafi látið köttinn hverfa vegna þess að hún heldur að Ella sé með ofnæmi fyrir kattarhárum en sjálf er hún viss um að það sé rykinu úr gömlu bókunum að kenna. Til að hefna sín gatar hún bókakost fornbókabúðarinnar með gatara svo úr verður ljóðasnjór meðan móðirin ver helginni með nýjum vini sínum, Slettirekunni. Og svo fer Ella sömu leið og pabbi hennar og Kattekismus: Burt.

Sagan hentar lesendum á aldrinum 10 til 100 ára. Málfar er látlaust og uppbygging sögunnar rökrétt og því kemur hin 11-12 ára gamla Ella fyrir sem áreiðanlegur sögumaður þegar hún trúir lesandanum fyrir hugsunum sínum, örvæntingu og ástúð í garð þeirra sem hún saknar: Kattekismusar og pabba síns.

Leikur að bókstöfum sem settir eru fram á myndrænan hátt, skarplegar athuganir sem fanga hið óáþreifanlega, röksemdafærslur barns sem bjóða heim hugrekkinu til þess að láta fá orð segja allt sem segja þarf – þetta eru nokkur þeirra stílbragða sem gera öskjuna að einstöku listaverki. Lausu blöðin og ritvélarletrið vísa í örugga og kunnuglega fortíð en eru jafnframt nýstárleg á tímum stafrænnar skriftar og læsis.

Askjan og innihald hennar virðast svo ósvikin að lesandinn finnur sig knúinn til að skyggnast um eftir horfnu stúlkunni að lestrinum loknum.     

Af tillitssemi við bókasöfn og kennara er verkið einnig gefið út sem bók með límdum kili. Innihaldið helst óbreytt, en gera áhrifin það einnig? Munurinn liggur í trúverðugleikanum.

  • Mette Hegnhøj, fædd 1976.
  • Stundaði nám í Forfatterskolen for Børnelitteratur í Kaupmannahöfn.
  • Hefur gefið út fjórar barnabækur og skrifað fjóra texta til birtingar í námsbókaflokknum Skrædder i helvede.