Nymphomaniac - Denmark

Nymphomaniac (Danmark)
Ljósmyndari
Christian Geisnaes

Ágrip

Nymphomaniac er villt og ljóðræn saga af lífshlaupi konu frá fæðingu til fimmtíu ára aldurs, sögð af aðalsöguhetjunni, Joe (Charlotte Gainsbourg), sem að eigin áliti er sjúklega vergjörn. Á köldu vetrarkvöldi finnur gamall, heillandi piparsveinn, Seligman (Stellan Skarsgård), Joe liggjandi í húsasundi eftir að hafa orðið fyrir barsmíðum. Hann fer með hana heim í íbúðina sína þar sem hann hjúkrar henni og spyr hana samtímis um líf hennar. Hann hlustar af áhuga á Joe sem í næstu átta köflum segir frá hömlulausri, greinóttri og marghliða ævi sinni sem er full af tengingum og hliðarsporum.

Rökstuðningur dómnefndar

Stór. Geggjuð. Fer um víðan völl. Lærð. Auðug. Ögrandi. Með Nymphomaniac undirstrikar Lars von Trier aftur að hann er einstakur, ekki aðeins í norrænni kvikmyndagerð, heldur í kvikmyndum yfirhöfuð. Með fjögurra tíma langri könnunarferð sinni um kynlíf konu notar Lars von Trier kvikmyndamiðilinn eins og hann hefði sjálfur fundið hann upp. Fyrir ævintýragjarna er Nymphomaniac gnægtarbrunnur djarflegs leiks, sérviskulegs frásagnarforms og glettnislegra hugleiðinga um eðli mannsins. Ýmislegt er fengið að láni hvort tveggja úr klámi og sígildum bókmenntum ― en það er ekkert til sem er þessu líkt.

Leikstjóri/handritshöfundur – Lars Von Trier

Lars von Trier var einn af upphafsmönnum Dogma-hreyfingarinnar dönsku á tíunda áratug síðustu aldar. Hann er jafnframt einn af stofnendum helsta kvikmyndafyrirtækis Danmerkur, Zentropa.

Lars von Trier er fæddur í Danmörku 30. apríl 1956 og útskrifaðist úr Danska kvikmyndaskólanum árið 1983. Hann sló í gegn ári eftir útskriftina með kvikmyndinni Forbrydelsens Element (Grunneiginleikar glæpsins) sem hlaut verðlaun fyrir tækni á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Flestar myndir sem hann hefur gert síðan hafa hlotið einhver af helstu verðlaunum hátíðarinnar í Cannes og önnur kvikmyndaverðlaun. Europa (1991) hlaut þrenn verðlaun í Cannes, þar á meðal Dómnefndarverðlaunin. Breaking the Waves (Brimbrot, 1996) hlaut Grand Prix-verðlaunin og Dancer in the Dark (Myrkradansarinn, 2000) Gullpálmann eftirsótta auk verðlauna fyrir bestu leikkonu, Björk Guðmundsdóttur.

Antichrist (Andkristur, 2009) var fyrsta myndin í því sem hann kallar sjálfur „Þunglyndisþríleikinn“, sem síðan hélt áfram með myndunum Melancholia (Melankólía)og NymphomaniacAntichrist hlaut verðlaun í Cannes fyrir bestu leikkonu og hún hlaut jafnframt Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs. Melancholia (2011) hlaut samtals 31 alþjóðleg verðlaun, þar á meðal hlaut Kirsten Dunst verðlaun sem besta leikkona í Cannes.

Sem handritshöfundur hefur Lars von Trier unnið með Thomas Vinterberg að myndinni Dear Wendy (Kæra Wendy) og með Jakob Thuesen að myndinni De unge år: Erik Nietzsche sagaen del 1 (Ungur að árum. Erik Nietzsche, 1. hluti). 

Framleiðandi – Louise Vesth

Louise Vesth er fædd 18. mars 1973. Hún nam rekstrarhagfræði við Verslunarháskólann í Árósum og starfaði hjá fyrirtækinu Jutlandia Film fram ársins til 1997 en þá hóf hún nám í Danska kvikmyndaskólanum. Hún útskrifaðist sem kvikmyndaframleiðandi árið 2001 og hóf þegar störf hjá Zentropa. Hún er nú einn af helstu framleiðendum fyrirtækisins og hefur unnið að meira en 25 kvikmyndum og sjónvarpsþáttaröðum. Vesth hefur framleitt ýmsar myndir með Christian E. Christiansen. Þar má einkum nefna stuttmyndina Om natten (Um nótt, 2008), sem tilnefnd var til Óskarsverðlauna, og hraðakstursdramað Lev Stærkt (Lifðu hratt, 2013). Með Mikkel Nørgaard, sem hún hefur þekkt síðan þau voru saman í kvikmyndaskólanum, gerði hún gamanþáttaröðina Klovn (Trúður) og myndina Klovn - the Movie sem gerð var í framhaldi af þeim. Hún var jafnframt framleiðandi tveggja fystu mynda hans sem byggja á metsölubókum Jussi Adler-Olsens, Kvinden i buret (Konan í búrinu) og Fasandræberne (Veiðimennirnir). Samstarf Vesths og Nikolaj Arcels hófst með myndinni Sandheden om mænd (Sannleikurinn um karla, 2011), sem tilnefnd var til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs, og þau unnu síðan einnig saman að myndinni En kongelig affære (Kóngaglenna) sem tilnefnd var til Óskarsverðlauna í flokki bestu erlendra kvikmynda og til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. Arcel mun leikstýra fyrir Vesth þriðju myndinni eftir glæpasögu Jussi Adler-Olsens, Flaskepost fra P. (Flöskuskeyti frá P.) Nymphomaniac er önnur myndin sem Vesth gerir með Lars von Trier, en þau hafa áður unnið saman að gerð Melancholia.

Louise Vesth var valinn í hóp evrópskra „framleiðenda á uppleið“ (Producers on the Move) á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2008.

Grunnupplýsingar um myndina

Frumtitill: Nymphomaniac

Leikstjóri: Lars von Trier

Handritshöfundur: Lars von Trier

Framleiðandi: Louise Vesth

Í aðalhlutverkum: Charlotte Gainsbourg, Stellan Skarsgård, Stacy Martin, Shia LaBeouf

Framleiðslufyrirtæki: Zentropa Entertainments

Lengd: Fyrsti hluti: 118 mínútur/Annar hluti: 124 mínútur

Dreifing innanlands: Nordisk Film

Alþjóðleg dreifing: TrustNordisk

Dómnefndarmenn

Per Juul Carlsen, Eva Novrup Redvall, Jakob Wendt Jensen