Rekonstruktion Utøya – Svíþjóð

Billede fra “Rekonstruktion Utøya” (Sverige) - Rakel Mortensdatter Birkeli
Ljósmyndari
Henrik Bohn Ipsen
Sænska kvikmyndin „Rekonstruktion Utøya“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2019

Sex árum eftir hryðjuverkaárásina í Útey þann 22. júlí 2011 koma Rakel, Mohammed, Jenny og Torje, sem öll lifðu árásina af, saman í Norður-Noregi til að rifja upp atburðina. Til fundar við þau koma tólf norsk ungmenni sem vilja hjálpa og skilja hvað gerðist. Sálfræðingur er til staðar gegnum allt verkefnið. Fundarstaðurinn er myndver þar sem minningar eftirlifenda af atburðunum í Útey eru rifjaðar upp og þeim raðað saman. Þau sem lifðu atburðina af segja frá sjálfra sín vegna, en einnig fyrir okkur hin. Fyrir nútímann og fyrir framtíðina. Í Rekonstruktion Utøya er fjallað um það ferli.

Rökstuðningur dómnefndar

Ljós og myrkur, ímyndun og alvara. Efasemdir og trú á framtíðina, þyngsl og léttleiki. Rekonstruktion Utøya hefur þetta allt. Leikstjórinn Carl Javér hefur fjallað um þennan harmræna atburð í sögu Norðurlanda af miklu næmi og djúpri virðingu fyrir eftirlifendum og afurðin er nánast óbærilega grípandi. Ásamt ungmennunum fyrir framan tökuvélina hefur hann skapað öruggt og umburðarlynt rými og samspilið, virðingin og traustið milli þátttakenda sendir skínandi geisla mannúðar út í heiminn.

Handritshöfundur/leikstjóri – Carl Javér

Carl Javér (1972) er handritshöfundur, leikstjóri og klippari og meðeigandi í fyrirtækinu Vilda Bomben Film í Gautaborg. Fyrsta heimildarmynd hans var sjónvarpsmyndin Tel al-Zaatar – Vägen tillbaka (1996), sem hann leikstýrði ásamt Anders Berggren. Myndin Freak Out! (2014) var sýnd á evrópsku menningarstöðinni ARTE. Hún var tilnefnd til Dragon-verðlauna í Gautaborg sem besta norræna heimildarmyndin og vann til tíu verðlauna.

Rekonstruktion Utøya var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Berlín 2019 í flokknum Generation 14plus og hlaut verðlaun fyrir bestu leikstjórn og sem besta heimildarmyndin á sænsku Guldbagge-verðlaununum.

Javér heldur reglulega fyrirlestra og veitir ráðgjöf um heimildamyndagerð í Svíþjóð, Noregi og Danmörku.

Handritshöfundur/framleiðandi – Fredrik Lange

Fredrik Lange (1964) er handritshöfundur, framleiðandi og meðeigandi í fyrirtækinu Vilda Bomben Film í Gautaborg.

Hann hóf feril sinn í leikhúsi en sneri sér síðar að kvikmyndagerð. Lange lauk meistaragráðu í framleiðslu kvikmynda frá Valand-akademíunni við Gautaborgarháskóla árið 2010. Hann hefur framleitt á annan tug heimildamynda, svo sem Freak Out! efir Carl Javér (2014) og Rekonstruktion Utøya, sem hann skrifaði handrit að ásamt Javér.  Myndin var valin til sýninga á fjölda alþjóðlegra hátíða og vann fjölmörg verðlaun, svo sem tvenn Guldbagge-verðlaun í Svíþjóð sem besta heimildarmyndin og fyrir bestu leikstjórn.

Framleiðsluupplýsingar

Titill á frummáli: Rekonstruktion Utøya

Leikstjórn: Carl Javér

Handrit: Carl Javér, Fredrik Lange

Framleiðandi: Fredrik Lange

Framleiðslufyrirtæki: Vilda Bomben Film

Lengd: 98 minuter

Dreifing innanlands: TriArt

Alþjóðleg dreifing: Cinephil