Sebastian

Sebastian
Ljósmyndari
Norden.org
Tilnefndur fyrir verkið „Øjeblikkets Mester“

Lagahöfundurinn og tónskáldið Sebastian, öðru nafni Knud Christensen, hefur aldrei verið tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs þótt hann sé af mörgum talinn eitt hæfaleikaríkasta tónskáld sinnar kynslóðar. Nú ráðum við bót á því og fögnum um leið óvenjulega löngum og stöðugum ferli sem virðist fjarri því að vera að líða undir lok. Hann nýtur auk þess mikillar hylli sem listamaður í Danmörku þar sem nokkrar kynslóðir hafa fengið að upplifa og hrífast af tónlist hans.

„Øjeblikkets Mester“ kom út árið 2011, um tuttugu árum eftir að hann gaf síðast út eigin lög. Í þessu verki snýr Sebastian í tónlistarlegum skilningi aftur til meginverka sinna frá níunda áratugnum og til lagasmíða í hæsta gæðaflokki.  Með því erum við minnt á hversu gott jafnvægið er milli frumleika og hefðar í verkum hans, á skýran norrænan hljóm þeirra og goðsagnaheim hans.

Með „Øjeblikkets Mester“ sýnir Sebastian viðvarandi áhuga sinn á samtímanum með því að setja fingurinn á samfélagspúlsinn og koma beinskeyttum skilaboðunum lipurlega á framfæri í hæfilegum skömmtum með því að búa þeim traustan lýrískan búning. Tónlistin er hástemmd, en þó um leið frelsandi í einfaldleika sínum.