Sokea mies joka ei halunnut nähdä Titanicia - Finnland

FI The blind man.jpg
Photographer
It’s Alive Films
Finnska kvikmyndin „Maðurinn sem vildi ekki sjá Titanic“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Jaakko er blindur og fatlaður og bundinn hjólastól. Hann elskar Sirpa. Þau búa langt frá hvort öðru og hafa aldrei hist í eigin persónu en þau tala daglega saman í síma.

Þegar Jaakko heyrir af hrakandi heilsufari Sirpa ákveður hann að fara til hennar þegar í stað, þrátt fyrir aðstöðu sína. Hann þarf að reiða sig á aðstoð fimm ókunnugra: frá heimili sínu að leigubílnum, frá leigubílnum að lestarstöðinni, frá lestarstöðinni í lestina, frá lestinni í leigubílinn og svo frá leigubílnum... til hennar.

Rökstuðningur

Kvikmyndin Blindi maðurinn sem vildi ekki sjá Titanic er einstök mynd bæði af efnistökum og gerð. Teemu Nikki fangar aðdáendur sína með frásögn sem í senn er margslungin og raunsönn. Hún leiðir til vangaveltna um þau samfélagslegu málefni sem liggja undir yfirborðinu. Sjónarhorn söguhetjunnar er í jafnvægi við söguna sjálfa: að endingu er það einstakt aðalhlutverkið í höndum Petri Poikalainen, sem sjálfur er með MS-sjúkdóminn, sem verður jafnvel áhrifaríkara en nýstárlegar aðferðir við kvikmyndagerðina.

Handritshöfundur og leikstjóri – Teemu Nikki

Teemu Nikki (fæddur 1975) er sjálfmenntaður kvikmyndagerðarmaður, sonur svínabónda frá Sysmä í Finnlandi. Árið 2001 kynntist hann framleiðandanum Jani Pösö og hófst þá listrænt samstarf þeirra. Saman reka þeir framleiðslufyrirtækið It´s Alive Films, eitt af virkustu framleiðslufyrirtækjum í Finnlandi.

Nikki hefur leikstýrt fjölda stuttmynda og kvikmynda í fullri lengd, sjónvarpsþátta og þáttaraða, auglýsinga og tónlistarmyndbanda. Meðal þekktustu verka hans er Euthanizer (2017) sem tilnefnd var til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs, All Inclusive (2019) sem tilnefnd var til Gullpálmans í Cannes í hópi stuttmynda, og Mental (Sekasin) og Mister8.

Blindi maðurinn sem vildi ekki sjá Titanic er fimmta kvikmynd Teemu Nikki í fullri lengd. Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum árið 2021 þar sem hún hlaut áhorfendaverðlaun. Kvikmyndinni er best lýst sem vel góðlátlegri en jafnframt vægðarlausri háðsádeilu á manneskjuna. Á meðal næstu verkefna Nikki er fjölskyldumyndin Snot & Splash.

Framleiðandi – Jani Pösö

Jani Pösö (fæddur árið 1969) er framleiðandi, rithöfundur og frumkvöðull. Hann er framkvæmdastjóri og stofnandi It’s Alive Films. Síðustu tvo áratugina hefur Pösö og félagi hans Teemu Nikki átt í samstarfi um fjölda stuttmynda, fimm kvikmyndir í fullri lengd og þrjár þáttaraðir. Allt verk sem hlotið hafa alþjóðlega viðurkenningu. Á meðal þeirra eru Euthanizer, framlag Finnlands til Óskarsverðlauna árið 2018 og sem tilnefnd var til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2017, þáttaröðin Mental (Sekasin), sem er kolsvört kómedía um geðheilsu ungmenna og Mister sem vann til tvennra verðlaun á Cannes. Blindi maðurinn sem vildi ekki sjá Titanic er fimmta kvikmynd Teemu Nikki í fullri lengd.

Pösö hefur einnig komið að framleiðslu tónlistar, leikrita og viðburða, stofnað tvær auglýsingastofur og haft umsjón með tískumerki.

Framleiðsluupplýsingar

Titill á frummáli: Sokea mies joka ei halunnut nähdä Titanicia

Leikstjóri: Teemu Nikki

Handritshöfundur: Teemu Nikki

Aðalhlutverk: Petri Poikolainen, Marjaana Maijala, Samuli Jaskio

Framleiðandi: Jani Pösö

Framleiðslufyrirtæki: It’s Alive Films

Lengd: 82 mínútur

Dreifing í heimalandi: It’s Alive Distribution

Alþjóðleg dreifing: Intra Movies