Sørine Steenholdt: Zombieland

Sørine Steenholdt
Photographer
Ulannaq Ingemann
Smásagnasafn

Ungir grænlenskir höfundar eru svo sannarlega farnir að láta að sér kveða með vel skrifuðum og nútímalegum samfélagsádeilum sem heilla lesendur, vekja þá til umhugsunar og færa þá inn í heim sem marga hefur aðeins rennt grun í hingað til.

Zombiet Nunaat færir lesandann inn í undirheima allra þeirra tilfinninga sem fylgja erfiðum uppvexti, mörkuðum af vanrækslu og misnotkun áfengis. Slíkar tilfinningar gleymast ekki, og lesandinn kynnist öllum þeim myrku afkimum barnshugans sem verða til vegna áfengissýki og vanmáttar foreldris. Í bókinni eru tíu vel skrifaðar smásögur, þrungnar reiði og máttleysi, og eru lýsingarnar á stundum svo hnífbeittar að lesandinn finnur þrúgandi þefinn af margra daga drykkju á heimilinu. Barnið verður sem uppvakningur, á meðal uppvakninga. En athyglisgáfa þess er óskert.

Hvað er raunveruleiki og hvað ímyndun? Sørine Steenholdt er höfundur sem kann þá list að nýta reynslu sína úr raunveruleikanum og færa hana í búning skáldskapar þar sem persónur bregða sér í ýmis hlutverk. Með þessari frumraun sinni dregur Steenholdt fram skuggahliðar grænlensks samfélags, og sýnir að þegar börn eru í þessari stöðu er umhverfi þeirra ekki stætt á því að láta sem ekkert sé og víkjast undan skyldu sinni gagnvart þeim. Valdi foreldrar ekki hlutverki sínu verður samfélagið að grípa inn í. Þetta er beinskeytt lýsing sem hittir í mark.

Grænland tilnefnir því Zombiet Nunaat eftir Sørine Steenholdt til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2016.