Þau hafa flúið (He ovat paenneet) – Finnland

He ovat paenneet (They Have Escaped) er nomineret til Nordisk Råds filmpris 2015

Ágrip

Í myndinni er sögð saga tveggja táninga sem hafa einangrast frá umheiminum og leita stöðugt nýrra flóttaleiða frá samfélagi sem hefur snúið baki við þeim. Stúlkan er aðlaðandi og opinská en pilturinn er dulur og stamar. Leiðir þeirra liggja saman á betrunarheimili fyrir unglinga. Pilturinn verður yfir sig hrifinn af stúlkunni og henni reynist létt verk að fá hann til að strjúka með sér. Þau stela bíl og stinga af í ferðalag þrungið eiturlyfjum, kynlífi og endalausum flóttaleiðum.

Rökstuðningur dómnefndar

Grípandi þroskasaga, spennandi vegamynd, fantasía í lyfjavímu og meira til! Þau hafa flúið (He ovat paenneet) eftir Jukka-Pekka Valkeapää daðrar við einkenni sígildra kvikmyndagreina til þess eins að þverbrjóta öll lögmál þeirra og umbreytast í tjáningarríkt og hömlulaust ævintýri sem ekki er ætlað börnum. Listileg myndataka og vönduð og margslungin tónlist auka enn á hið sterka, draumkennda andrúmsloft myndarinnar.

Leikstjóri/handritshöfundur – J-P Valkeapää

J-P Valkeapää (1977) hlaut fyrst alþjóðlega viðurkenningu sem teiknari og skopmyndateiknari. Hann gerði verðlaunastuttmyndirnar Silmät kiinni ilman käsiä (2000) og Keinu (2003) áður en hann hóf nám við námsbrautina Cannes Cinéfondation árið 2005, en þar vann hann handritið að frumraun sinni í fullri lengd, Muukalainen. Myndin var valin besta norræna myndin og hlaut einnig verðlaun fyrir bestu kvikmyndatöku á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Gautaborg 2009. Önnur kvikmynd Valkeapää í fullri lengd, Þau hafa flúið (He ovat paenneet), var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum og hlaut fjögur Jussi-verðlaun í heimalandinu árið 2015, þar á meðal sem besta mynd og fyrir bestu leikstjórn.

Handritshöfundur – Pilvi Peltola

Pilvi Peltola á að baki langan starfsferil á sviði félagsmála, m.a. með fósturbörnum. Þá reynslu notfærði hún sér við skrif handritsins að Þau hafa flúið, sem hún skrifaði ásamt leikstjóranum J-P Valkeapää.  Þau hafa flúiðer fyrsta kvikmyndahandrit hennar.

Framleiðandi – Aleksi Bardy

Aleksi Bardy er stofnandi Helsinki-filmi, sem er eitt fremsta framleiðslufyrirtæki í Finnlandi. Hann hefur framleitt og/eða skrifað handrit að mörgum myndum sem hlotið hafa mikið lof og aðsókn í Finnlandi og jafnvel vakið alþjóðlega athygli, s.s. Kielletty hedelmäNapapiirin sankarit og Leijonasydän eftir Dome Karukoski, Käsky eftir Aku Louhimies og myndirnar Muukalainen og Þau hafa flúið eftir J-P Valkeapää. Hann hefur einnig meðframleitt myndir, m.a. Bekas eftir Karzan Kader (Svíþjóð) og Parked eftir Darragh Byrne (Írland).  Sem stendur starfar hann að frumraun Karukoskis á ensku, Tom of Finland, og næsta verkefni Valkeapääs, sem gengur undir vinnutitlinum Mona og fjallar um fólk sem finnur hjálpræði í sadómasókisma.

Bardy er prófessor við kvikmyndaskólann Elo í Helsinki.

Framleiðsluupplýsingar

Titill á frummáli: He ovat paenneet

Leikstjóri: J-P Valkeapää

Handritshöfundar: J-P Valkeapää, Pilvi Peltola 

Framleiðandi: Aleksi Bardy

Framleiðslufyrirtæki: Helsinki-filmi Oy 

Aðalleikarar: Teppo Manner, Roosa Söderholm, Petteri Pennilä, Pelle Heikkilä

Fulltrúar dómnefndar

Jaana Puskala, Outi Heiskanen, Harri Römpötti