Turist (Ferðamaður) - Svíþjóð

Turist (Sverige)
Ljósmyndari
Fredrik Wenzel

Ágrip

Vel stæðir ferðamenn glata virðingu sinni. Af völdum „óviðráðanlegra aðstæðna“ upplifir fjölskylda í fríi mannleg viðbrögð sem hún hefur aldrei upplifað áður. Þau neyðast til þess að tileinka sér þarfir og eðlisávísun sem þau hafa lært að fyrirlíta og aðeins að eigna öðrum.

Turist (Ferðamaður) er gamanmynd um hlutverk karlmannsins í fjölskyldulífi nútímans.

Rökstuðningur dómnefndar

Ruben Östlund brýtur til mergjar mannleg samskipti, í senn kuldalega úr fjarlægð og áleitið í nálægð. Þegar hann lýsir hjónabandinu koma upp á yfirborðið siðferðisleg og kynbundin álitamál. Öllu eru gerð skil með sjónrænum og formföstum stíl sem orðinn er höfundareinkenni hans.

Leikstjóri/handritshöfundur – Ruben Östlund

Ruben Östlund fæddist árið 1974 á Styrsö, lítilli eyju við vesturströnd Svíþjóðar. Östlund er mikill skíðaáhugamaður og hefur leikstýrt þremur skíðamyndum sem bera vitni um hrifningu hans af löngum tökum. Hann nam kvikmyndagerð við Gautaborgarháskóla þar sem hann kynntist framleiðandanum Erik Hemmendorff. Þeir stofnuðu síðar saman fyrirtækið Plattform Produkton. Hann er þekktur fyrir sérstakan stíl sinn og raunsæjar lýsingar á félagslegri hegðun manna.

Stuttmynd hans, Scen nr: 6882 ur mitt liv (Atriði 6882 úr lífi mínu), hlaut Prix UIP-verðlaunin fyrir bestu evrópsku stuttmynd í Edinborg 2005 og stuttmyndin Händelse vid bank (Atburður við banka) hlaut Gullna björninn á stuttmyndahátíðinni í Berlín 2010. Fyrsta mynd hans í fullri lengd, Gitarrmongot (Gítarfávitinn) hlaut FIPRESCI-verðlaunin í Moskvu og var tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2005. Önnur kvikmynd hans í fullri lengd, De ofrivilliga (Hinir ósjálfráðu) var valin í keppnina Un Certain Regard í Cannes. Þriðja mynd hans, Play, var frumsýnd á Quinzaine des Réalisateurs (Leikstjóravikunum) í Cannes árið 2011 þar sem hún hlaut „Coup de coeur“-verðlaunin. Hún var tilnefnd til LUX-verðlauna Evrópuþingsins og hlaut Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2012.  Turist er þriðja mynd Östlunds sem tekur þátt í kvikmyndahátíðinni í Cannes. Hún hlaut þar verðlaun dómnefndar í keppninni Un Certain Regard og fékk mjög góða gagnrýni í erlendum fjölmiðlum.

Framleiðandi – Erik Hemmendorff

Erik Hemmendorff er fæddur árið 1973. Hann stundaði nám við ljósmynda- og kvikmyndaskóla Gautaborgarháskóla og kynntist þar leikstjóranum Ruben Östlund. Árið 2002 stofnuðu þeir saman fyrirtækið Plattform Produktion til að skapa grundvöll fyrir unga norræna kvikmyndagerðarmenn með öðruvísi og einstaka sýn á kvikmyndalistina.

Hemmendorff hefur framleitt verðlaunamyndir Östlunds;Scen nr: 6882 ur mitt livDe ofrivilligaHändelse vid bankPlay ogTurist og heimildamyndirnar En enastående studie i mänsklig förnedring (Einstök lýsing á mannlegri niðurlægingu), Hälsningar från skogen (Kveðjur úr skóginum) og Pangpangbröder, 53 scener från en barndom (Tvíburabræður, 53 atriði úr barnæsku).

Hemmendorff var meðframleiðandi myndanna Dau eftir rússneska leikstjórann Ilya Khrzhanovsky, Bypasseftir breska leikstjórann Duane Hopkins og Betoniyö (Steinsteypunótt) eftir hinn viðurkennda finnska leikstjóra Pirjo Honkasalo.

Hemmensdorff hlaut Lorenz-verðlaunin sem besti sænski leikstjórinn árið 2008 og var valinn í hóp evrópskra „framleiðenda á uppleið“ (Producers on the Move) á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2009.

Framleiðandi – Marie Kjellson

Marie Kjellson fæddist árið 1981 og ólst upp í Gautaborg. Hún stundaði nám í viðskiptafræði, hagfræði og lögfræði við Gautaborgarháskóla og í kvikmynda- og sjónvarpsfræðum við lýðháskólann í Skurup.

Hún vann við klippingu mynda á borð við Nyheter i skärgården (Nýlunda í skerjagarðinum) eftir Johan Jonason og Flickan från Auschwitz (Stúlkan frá Auschwitz) eftir Stefan Jarl. Kjellson gekk til liðs við fyrirtækið Plattform Produktion árið 2004. Hjá fyrirtækinu sinnti hún ýmsum verkefnum tengdum framleiðslu á myndum Ruben Östlunds, til dæmis hafði hún umsjón með framleiðslu myndarinnar De ofrivilliga, var framleiðslustjóri myndarinnar Play og framleiðandi myndanna Händelse vid bank og Turist.

Hún var einnig meðframleiðandi finnsku myndarinnar Betoniyö.

Í desember 2013 stofnaði hún eigið framleiðslufyrirtæki, Kjellson & Wik.

Framleiðandi – Philippe Bober

Philippe Bober er fæddur 28. maí 1963. Hann rekur kvikmyndadreifingarfyrirtækið Coproduction Office. Það var stofnað árið 1987 og sérhæfir sig í nýskapandi og grípandi myndum frá sjálfstæðum framleiðendum. Fyrirtækið er með alþjóðlega söludeild og þrjú framleiðslufyrirtæki: Parisienne í París, Essential í Berlín og Coproduction Office í Kaupmannahöfn.

Bober hefur átt langt og gifturíkt samstarf við þekkta evrópska kvikmyndagerðarmenn á borð við Roy Andersson og Ruben Östlund frá Svíþjóð, Michelangelo Frammartino frá Ítalíu og Jessica Hausner og Ulrich Seidl frá Austurríki.

Grunnupplýsingar um myndina

Frumtitill: Turist

Leikstjóri: Ruben Östlund 

Handritshöfundur: Ruben Östlund 

Framleiðendur: Erik Hemmendorff, Marie Kjellson, Philippe Bober 

Í aðalhlutverkum: Johannes Bah Kuhnke, Lisa Loven Kongsli, Kristoffer Hivju, Fanni Metelius

Framleiðslufyrirtæki: Plattform Produktion AB (Sweden), Parisienne (France), Coproduction Office ApS (Denmark)

Lengd: 118 mínúta

Dreifing innanlands: TriArt

Alþjóðleg dreifing: Coproduction Office

Dómnefndarmenn

Jannike Åhlund, Jon Asp, Kristina Börjeson