Verðlaunahafi 2011

Mats Gustafsson
Photographer
Cato Lein
Sænski saxófónleikarinn og tónskáldið Mats Gustafsson hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2011.

Mats Gustafsson (1964), sem hefur um árabil verið þekkt nafn á sviði spunatónlistar, hlaut hin eftirsóttu tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 2011.

Rökstuðningur dómnefndar:

„Mats Gustafsson hefur í rúma tvo áratugi verið eitt af stóru nöfnunum á sviði spunatónlistar. Með nýskapandi saxófónleik leitar hann stöðugt út fyrir ramma þeirra skilgreininga sem við notum til að flokka tónlist sem við höfum ekki heyrt áður.

Óháð því hvort hann vinnur í framúrstefnuheimi Peter Brötzmann Chicago Tentet, eða í pönktríóinu The Thing, er Mats til staðar í afdráttarlausri túlkun, algjörri nærveru, með eftirtektarverða orku og mikla tilfinningu fyrir meðspilurum sínum.

Mats endurnýjar ekki eingöngu tjáningarform saxófónsins, hann enduruppgötvar það og skapar nýjan tónlistarheim milli tónanna og bak við hávaðann. Í tónleikahaldi er Mats jafn aðsópsmikill og ófyrirsjáanlegur og plötuútgáfa hans, en hann hefur gefið út yfir 200 plötur. Við mælum með því að þið opnið hjörtu ykkar og látið hrífast af tónlistarheimi Mats Gustafsson.“

Þema tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2011 var eftirfarandi:

„Tónlistarmaður (hljóðfæraleikari eða söngvari), sem hefur stuðlað að nýsköpun í tónlist þar sem spuni er lykilatriði og sköpun viðkomandi er mikilvæg fyrir form, hljóm og samhengi í tónlistarlegri tjáningu. Hinn tilnefndi skal hafa vakið athygli í norrænu eða alþjóðlegu tónlistarlífi á síðasta ári (2010).”

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs nema 350.000 dönskum krónum. Verðlaunin voru afhent Mats Gustafsson á Norðurlandaráðsþingi í Kaupmannahöfn í byrjun nóvember 2011.