Vetrarbræður – Danmörk

Billede fra "Winter Brothers" (Danmark) - Elliott Crosset Hove
Photographer
Masterplan Pictures and Join Motion Pictures
Danska kvikmyndin „Vetrarbræður“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2018.

Vetrarbræður er saga tveggja bræðra í kalknámubæ á köldum vetri. Yngri bróðirinn, Emil, bruggar landa úr hráefni sem hann hnuplar í verksmiðjunni. Hann er sérvitur og utanveltu, en er umborinn af hinum námuverkamönnunum sakir eldri bróður síns, Johans. Emil þráir að njóta hylli og ástar. Þegar einn af verkamönnunum veikist beinist grunur samstundis að Emil og brugginu hans. Smám saman brjótast út átök milli Emils og hins nána samfélags námuverkamannanna. Um leið finnst Emil hann svikinn þegar hann kemst að því að Anna, konan sem hann dreymir um, er hrifin af bróður hans.

Rökstuðningur dómnefndar

Á tímum mikils fyrirsjáanleika og formúlukenndra lausna í kvikmyndabransanum eru Vetrarbræður því sem næst opinberun. Leikstjórinn Hlynur Pálmason gerir tilraunir með nýstárlega samsetningu ramma og óvænta hljóðvinnu. Þó að myndin hafi söguþráð byggir upplifun áhorfandans einkum á skynjun, tengingum og draumtúlkunum. Hvað eiga áhorfendur að gera við þessa sögu um tvo bræður sem vinna í kalknámu í hrjóstrugu vetrarlandslagi? Það er undir hverjum og einum komið. Hlynur Pálmason býður í leiðangur á framandi slóðir en lætur áhorfendur jafnframt vinna fyrir farinu.

Handrit / leikstjórn / framleiðandi – Hlynur Pálmason

Hlynur Pálmason (f. 1984) er listamaður og kvikmyndagerðarmaður. Eftir að hafa lagt stund á myndlist ákvað Hlynur að snúa sér að kvikmyndagerð og hefja nám við kvikmyndaskóla Danmerkur. Útskriftarmynd hans, stuttmyndin En maler (2013), vann til verðlauna á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum í Óðinsvéum og Reykjavík og var tilnefnd til hinna dönsku Robert-verðlauna. Stuttmynd hans Seven Boats (2014) var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto. Frumraun hans í fullri lengd, Vetrarbræður, var heimsfrumsýnd á aðalkeppni kvikmyndahátíðarinnar í Locarno og hlaut þar fern verðlaun. Myndin átti eftir að hljóta yfir 25 alþjóðleg verðlaun til viðbótar, svo sem New Talent Grand PIX á CPH PIX, verðlaun fyrir bestu leikstjórn á kvikmyndahátíðinni í Þessalóníku og níu Robert-verðlaun, þar á meðal fyrir bestu kvikmynd, bestu leikstjórn og besta leik í aðalhlutverki (Elliott Crosset Hove).

Hlynur Pálmason vinnur nú að annarri mynd sinni í fullri lengd, Hvítur, hvítur dagur, samhliða því að sinna hugðarefnum sínum á sviði myndlistar og myndbandsinnsetninga.

Framleiðandi – Julie Waltersdorph Hansen

Julie Waltersdorph Hansen (f. 1984) er einn af stofnendum danska framleiðslufyrirtækisinsMasterplan Pictures.

Waltersdorph Hansen útskrifaðist af framleiðendabraut Kvikmyndaskóla Danmerkur árið 2013. Útskriftarverk hennar var En maler, stuttmynd eftir Hlyn Pálmason. Sama ár stofnaði hún ásamt fleirum framleiðslufyrirtækið Masterplan Pictures. Hún framleiddi bæði stuttmyndina Seven Boats eftir Hlyn Pálmason og frumraun hans í fullri lengd, Vetrarbræður, sem hlotið hefur fjölda verðlauna.

Framleiðandi – Per Damgaard Hansen

Per Damgaard Hansen (f. 1984) er einn af stofnendum danska framleiðslufyrirtækisins Masterplan Pictures.

Hann lauk B.A.-námi í kvikmynda- og fjölmiðlafræði frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2007. Því næst hóf hann nám á framleiðslubraut í Kvikmyndaskóla Danmerkur og útskrifaðist þaðan árið 2013. Sama ár stofnaði hann framleiðslufyrirtækið Masterplan Pictures ásamt fleirum. Damgaard Hansen hefur framleitt fjölda stuttmynda sem hlotið hafa alþjóðlegt lof, svo sem Seven Boats eftir Hlyn Pálmason og Vetrarbræður, frumraun Hlyns í fullri lengd. Sú mynd hefur hlotið átján alþjóðleg verðlaun og níu dönsk Robert-verðlaun, meðal annars sem besta mynd.

Á meðal næstu verkefna Damgaard Hansens eru fyrsta kvikmynd Carls Marott, Den blå orkidé, með Joachim Fjelstrup í aðalhlutverki, og kvikmynd eftir Simon Staho sem hefur ekki hlotið titil.

Damgaard Hansen er stjórnarmeðlimur í Dönsku kvikmyndaakademíunni og meðlimur í Evrópsku kvikmyndaakademíunni. Hann var valinn „Producer on the Move“ ásamt fleirum á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2018.

Framleiðandi – Anton Máni Svansson

Anton Máni Svansson (f. 1984) er einn af stofnendum reykvíska framleiðslufyrirtækisins Join Motion Pictures. Anton Máni nam sálfræði, heimspeki og handritaskrif við Háskóla Íslands. Árið 2007 stofnaði hann ásamt fleirum framleiðslufyrirtækið Join Motion Pictures, með það að markmiði að mynda náin samstarfs- og tengslanet með ungum og hæfileikaríkum leikstjórum og handritshöfundum. Á meðal afurða þess samstarfs eru kvikmyndir eftir Guðmund Arnar Guðmundsson og Hlyn Pálmason sem hlotið hafa ýmsar alþjóðlegar viðurkenningar.

Fyrsta mynd Guðmunds Arnars í fullri lengd, Hjartasteinn, var heimsfrumsýnd á Venice Days 2016 og vann til yfir 50 verðlauna. Hún var tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2017.

Vetrarbræður eftir Hlyn Pálmason var frumsýnd í keppnisflokki á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Locarno 2017, þar sem hún hlaut fern verðlaun. Síðan hefur hún verið seld til yfir 20 landa og hlotið yfir 30 verðlaun. Næsta framleiðsluverkefni Antons Mána er önnur kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Hvítur, hvítur dagur.

Árið 2017 hlaut Anton Lorens-verðlaunin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Gautaborg fyrir Hjartastein, ásamt öðrum framleiðendum myndarinnar. Anton Máni Svansson var valinn „Producer on the Move“ á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2017.

Framleiðsluupplýsingar

Titill á frummáli: Vinterbrødre

Leikstjórn: Hlynur Pálmason

Handrit: Hlynur Pálmason

Framleiðendur: Hlynur Pálmason, Julie Waltersdorph Hansen, Per Damgaard Hansen, Anton Máni Svansson

Aðalhlutverk: Elliott Crosset Hove, Simon Sears, Victoria Carmen Sonne, Lars Mikkelsen, Peter Plaugborg

Framleiðslufyrirtæki: Masterplan Pictures, Join Motion Pictures

Lengd: 94 mínútur

Dreifing í Danmörku: Øst for Paradis

Alþjóðleg dreifing: New Europe Film Sales