Vilma Sandnes Johansson
Rökstuðningur
Tænk ikke på mig („Ekki hugsa um mig“, ekki gefin út á íslensku) er skynræn, hjartnæm og mikilvæg unglingabók um aðalpersónuna Vilmu, 13 ára, sem er nýbyrjuð á blæðingum í fyrsta sinn á sama tíma og móðir hennar hefur greinst með ólæknandi krabbamein. Á einum stað hefst alveg nýtt líf og annars staðar er öðru að ljúka alltof snemma. Þetta kemur af stað ýmsum sterkum og áleitnum tilfinningum sem skekja, skera og rífa í Vilmu eina stundina – og þá næstu er allt orðið að undursamlegum dansi þar sem vinir, vinkonur, partí og mögulegir og ómögulegir kærastar birtast í dæmigerðu táningsalgleymi þar sem engar tilfinningar eru of smáar.
Þetta er berskjölduð, grípandi, meitluð og hlý innsýn í heim sem er að mörgu leyti að umturnast, en sem byggist líka hægt upp aftur gegnum mikilvæg, náin tengsl þar sem raunveruleikinn sýnir sig frá öllum þeim hliðum sem eru í raun lífið sjálft – með góðu jafnt sem illu.
Vilma Sandnes Johansson fegrar ekkert. Sagan er sögð á máli sem er lifandi, hoppandi, einfalt og þó ljóðrænt á sinn hátt, þar sem frásögnin flysjar burt mörg af hinum ytri, óþörfu lögum svo að við lesendurnir lokumst líka inni í sorginni, sársaukanum og örvæntingunni, en einnig í fallegum og vel stíluðum augnablikum þar sem mæðgurnar eiga sínar síðustu stundir saman. Frásagnarhátturinn er yfirvegaður og þó með skörpum dráttum. Úr verður trúverðug og í senn óbærileg frásögn af því að upplifa missi en öðlast um leið eitthvað nýtt.
Tænk ikke på miger sjálfsævisöguleg bók og frumraun Vilmu Sandnes Johansson sem rithöfundar. Þetta er berskjölduð, yfirþyrmandi og knöpp frásögn af hinni miklu flækju mótunaráranna, þegar allt og ekkert kemur saman í tilraun til að ljá tilverunni tilgang og samhengi. Textinn slær á sama hátt og púlsinn. Loftkenndur og léttur á einum stað, þéttur og áleitinn á öðrum. Nánast eins og lesandinn mæti sjálfum sér í spegli, þar sem hvorki er að finna flóttaleiðir né góðlátlega miskunnsemi. Þetta er nauðsynleg bók um það að lifa, ekki bara lifa af. Formeinkenni unglingabókarinnar koma skýrt fram í iðandi myndskreytingum sem sýna músíkalskt og skapandi umhverfi og tímabil í miðri Kaupmannahöfn, sem aldrei er alveg kyrr. Ekki einu sinni andspænis dauðanum.
Vilma Sandnes Johansson (2000) hefur af miklu hugrekki skrifað sannfærandi skáldsögu sem þorir að vera sterk og viðkvæm, bæði út af fyrir sig og í samhengi við þann heim sem bókin hyllir hvað eftir annað. Ekki er hægt að lesa þessa bók án þess að finna fyrir henni í augunum, rétt eins og lífinu sem við lifum og sem ómögulegt er að sjá fyrir.