Peter Hägerstrand

Peter Hägerstrand
Photographer
Marcus Boman
Peter Hägerstrand er á meðal hinna 13 listamanna og hópa sem tilnefndir eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Rökstuðningur:

Peter Hägerstrand, gítarleikari og tónskáld, er fæddur og uppalinn á Álandseyjum. Peter hefur áður hlotið viðurkenningu fyrir tónlistarsköpun sína en hann hlaut verðlaun álensku menningarnefndarinnar, Sally Salminen-verðlaunin, árið 2017.

Síðan hann kvaddi sér fyrst hljóðs árið 1979 hefur Peter Hägerstrand samið tónlist fyrir kvikmyndir, sjónvarpsþætti og leikhús auk þess að koma fram og gefa út plötur. Samhliða því hefur hann einnig starfað sem hljóðblandari, tónlistarframleiðandi, hljómsveitarstjórnandi og tónlistarkennari. 

Hann hóf þó ferilinn á sviði rokktónlistar. Meðal áhrifavalda á tónlistarsköpun hans er bresk popptónlist frá sjöunda áratug tuttugustu aldar, og hugsanlega dálítið pönk. Ásamt hljómsveitum sínum hefur hann farið í tónleikaferðalög um Svíþjóð og Danmörku, auk Finnlands, og komið fram á þúsundum tónleika með ýmsum hópum frá árinu 1979. Í augnablikinu vinnur Peter að þremur nýjum verkefnum, bæði tónlistarupptökum og sviðsflutningi, sem munu ná eyrum almennings á tímabilinu 2021–2023. Undanfarin ár hefur hann átt í samstarfi við franska útgáfufyrirtækið Milan.

Sjálfur segir Peter eftirfarandi um tónlistarsköpun sína: „Ef maður semur tónlist með persónulegu sniði sem byggir ekki á algengustu hljómagöngum eða tilbrigðum við þekkt stef, eða skrifar texta sem innihalda ekki línulega frásögn í réttri tímaröð, þá þarf fólk að hlusta oftar en einu sinni til að ná því almennilega. Það hafa ekki allir tíma til slíks. Lögin mín hafa kannski ekki þann huggulega tón sem þarf til að ná inn í stofur allra heimila. Ég er og verð dálítill furðufugl. En þið losnið ekki við mig. Ég held áfram að hjakka í þessu. Á hvaða máli það verður, eða með hvaða sniði, er það sem ég er að reyna að finna út úr núna.“

Eftir langan feril sem gítarleikari og söngvari í ýmsum hljómsveitum, svo sem Gycklarnas afton, Good Evening Manchester og Jupiter Park, hefur Peter Hägerstrand einnig byggt upp sólóferil sem getið hefur af sér fjölda platna og laga. Þar á meðal er Den blåa skogen frá 2015, plata sem hlotið hefur mikið lof og nær til nýrra hlustenda nánast daglega. Tónlistargagnrýnandinn Dan Eskil Jansson lét þau orð falla um plötuna á stöðinni Svenska Yle að þetta væri besta tónlist sem gerð hefði verið í hinu sænskumælandi Finnlandi, og að Peter Hägerstrand væri „einn þeirra tónlistarmanna og tónskálda sem hafa sinn eigin stíl. Hann semur og flytur tónlist með persónulegri raust sem við fyrstu hlustun kann að virðast dálítið ófáguð, en við örlítið nánari athugun sýnir hún sig strax sem talsvert margslungnari og þaulhugsaðri en virtist í fyrstu.“

Peter er sönglagahöfundur í grunninn, en hefur með tímanum samið æ meira af tónlist fyrir kvikmyndir, sjónvarp og leikhús. Þar má til dæmis nefna tónlistina við hina verðlaunuðu sjónvarpsþáttaröð Lola Upside Down, sem kom út hjá Milan Music árið 2016. Hann samdi einnig tónlistina við kvikmyndina Lärjungen, sem hlotið hefur fjölda alþjóðlegra verðlauna og var framlag Finnlands til Óskarsverðlaunanna árið 2014. Alls hefur hann samið um tuttugu verk fyrir kvikmyndir og sjónvarp og um tíu fyrir leikhúsverk í Finnlandi og Svíþjóð.