Teresa Glad

Teresa Glad
Photographer
Pär Berg
Teresa Glad: Farbröder. Myndasaga byggð á heimildum, Natur & Kultur, 2022. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Rökstuðningur

Börn lifa að mestu leyti í núinu, en þau hugsa ýmislegt – um óttann við að vera utanveltu, um það hvernig allt í heiminum tengist, um tilgang lífsins og aðrar tilvistarlegar spurningar – og um hina fjarlægu, framandi framtíð sína sem fullorðin manneskja.

 

Í Farbröder („Frændur“, ekki gefin út á íslensku) tekst Teresa Glad á við þessar hugmyndir í viðtölum við níu roskna menn – um drauma þeirra og upplifanir úr æsku og þau áhrif sem þessir draumar og upplifanir hafa haft á líf þeirra.

 

Án þess að neitt sé mildað eða því hagrætt mætum við dauða, þungri sorg, systkinaöfund og grimmd. Jafnvel þegar fólk gerir eitthvað sem það ætti ekki að gera grunar lesandann hvað býr að baki. En hér finnst líka bæði huggun og von – þau sem hafa baráttuþrek og sterkan vilja geta látið drauma sína rætast þrátt fyrir erfiðar aðstæður, og þeim sem finnst þau öðruvísi geta þrátt fyrir það öðlast líf í lagi.

 

Það kemur skýrt fram að öll börn verða fullorðin og að allir fullorðnir voru eitt sinn börn. Ekki er öllum spurningum svarað, lífið býr áfram yfir dulúð.

 

Teresa Glad er myndskreytir, handritshöfundur og teiknimyndagerðarkona, hefur gefið út myndabækur og búið til teiknaðar stuttmyndir. Fyrsta bók hennar, Pella och pinnarna („Pella og prikin“, ekki gefin út á íslensku), kom út 2016. Hún kennir innan allra þessara þriggja sviða og kom meðal annars á fót eins árs námi í myndabókagerð við Sörängen-lýðháskólann árið 2018.

 

Í Farbröder hefur hún valið raunsæjan teiknistíl með lágstemmdum litum sem eiga vel við hið draumkennda og viðsjála sem ávallt fylgir viðleitni okkar til að reyna að skilja lífið.

 

Innihald bókarinnar teygir sig langt yfir mörk bókmenntagreina – og yfir allar niðurnjörvaðar skiptingar í aldurshópa. Spekingar og aðrir lesendur á öllum aldri eiga eftir að fá heilmikið út úr henni.

 

Farbröder var höfð til sýnis sem ein af 100 „outstanding picturebooks“ á barnabókamessunni í Bologna nú í ár.