Svalbarða-yfirlýsingin um losun skammvinnra loftslagsspilla, 27.03.2012

27.03.12 | Yfirlýsing
Draga þarf úr losun skammvinnra loftslagsspilla.

Upplýsingar

Adopted
27.03.2012
Location
Svalbard

Á fundi norrænu umhverfisráðherranna á Svalbarða dagana 26.-27. mars 2012 höfum við fjallað um hvað við getum gert til að draga úr losun skammvinnra loftslagsspilla á borð við sót og metan bæði á hnattræna vísu og á grannsvæðum okkar.

Með því má sporna gegn hlýnun sem er sérstaklega mikil á Norðurskautinu og hefur dregið verulega úr ís á svæðinu undanfarin 30 ár. Slíkar aðgerðir munu hafa mikilvæg áhrif á heilsu manna og umhverfi og munu, ásamt stefnu í loftslagsmálum, draga úr losun annarra gróðurhúsalofttegunda í samræmi við skuldbindingar okkar á alþjóðavettvangi.

Losun skammvinnra loftslagsspilla hefur áhrif á loftslag og jafnframt neikvæð áhrif á heilsu manna, og því er nauðsynlegt að setja um þetta ákvæði í sáttmála þá um umhverfismál sem gilda á alþjóðlegum vettvangi. Þess mun þó nokkuð að bíða að áhrifa slíkra samninga gæti nægilega.

Á meðan beðið er eftir alþjóðlegri löggjöf er brýnt að draga úr losun skammvinnra loftslagsspilla á borð við sót, metan og ósón við yfirborð jarðar. Aðgerðir af þessum toga þurfa að beinast að þróuðum jafnt sem þróunarlöndum.

Á grundvelli náins samstarfs og sameiginlegra gilda viljum við, ráðherrar Norðurlanda á sviði umhverfismála, efla aðgerðir til að draga úr losun skammvinnra loftslagsspilla í löndunum, á svæðisvísu og á hnattvísu.

Við viljum búa í haginn fyrir og hafa áhrif á nánara samstarf á alþjóðlegum vettvangi um metnaðarfulla alþjóðlega löggjöf um losun gróðurhúsalofttegunda og skammvinnra loftslagsspilla.

Áhersla á skammvinna loftslagsspilla má þó ekki beina athyglinni frá aðgerðum til að draga úr losun koltvísýrings. Í þessu samhengi beinum við einkum sjónum að eftirfarandi þáttum:

  • að vinna að loftslagssamningi á hnattvísu undir rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC), til að tryggja að markmiðið um tvær gráður náist.
  • að halda áfram uppbyggingu þekkingar og samstarf um aðgerðir á vettvangi Norðurskautsráðsins, þar með talið að fylgja eftir hugsanlegum samningi um að draga úr sóti á Norðurskauti  
  • að efla aðgerðir í löndunum til að draga úr losun frá samgöngum og eldiviðarkyndingu, sem mun hafa jákvæð svæðisbundin áhrif á loftslag og heilsu manna  
  • að efla samstarf á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar
  • að vinna að verkefnum til að draga úr svæðisbundinni losun skammvinnra loftslagsspilla á vegum umhverfisfjármögnunarfélagsins NEFCO
  • að þróa starfsemi á vettvangi Barentssamstarfsins
  • að styðja við starf umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) og framkvæmd aðgerða gegn skammvinnum loftslagsspillum með jákvæðum áhrifum á heilsu manna og umhverfi
  • að íhuga þátttöku í verkefnum sem UNEP styður, þ.m.t. nýstofnað verkefni, „Climate and Clean Air Coalition to Reduce Short Lived Climate Pollutants“
  • að halda áfram alþjóðlegu starfi að hagkvæmum aðgerðum til að draga úr losun ásamt alþjóðlegri löggjöf, þ.m.t. áherslu á aðgerðir gegn losun sóts með því að setja reglugerðir um losun svifryks í löndunum undir sátttmálanum um loftmengun sem berst langvegu milli landa (CLRTAP)

Til að skapa grundvöll fyrir aðgerðir í löndunum og samnorrænar aðgerðir viljum við:

  • Þróa og efla losunarbókhald landanna vegna skammvinnra mengunarvalda sem taki einnig til sérstaks losunarbókhalds um sót.
  • Varpa ljósi á hagkvæmar aðgerðir til að draga úr losun og meta þörf fyrir framkvæmdaáætlanir í löndunum varðandi það að draga úr losun.
  • Meta þörfina fyrir norræna framkvæmdaáætlun til að tryggja skilvirka framkvæmd aðgerða og hámarka samræmingu aðferða milli landanna á grundvelli framkvæmdaáætlana þeirra.

Til að styðja við þetta starf verður haldið sérstakt norrænt málþing dagana 7.-8. júní þar sem gefst tækifæri til að miðla reynslu af losunarbókhaldi landanna, greiningu á hagkvæmum aðgerðum til að draga úr losun og vinna að framkvæmdaáætlunum í löndunum.