Yfirlýsing norrænu heilbrigðis- og félagsmálaráðherranna um framtíðarsamstarf Norðurlanda í heilbrigðismálum

16.10.14 | Yfirlýsing
Við, félags- og heilbrigðismálaráðherrar Norðurlandanna, höfum í dag rætt af miklum áhuga skýrslu sem beðið hefur verið með eftirvæntingu, en í henni leggur Bo Könberg fram 14 tillögur til eflingar norrænu samstarfi um heilbrigðismál. 

Upplýsingar

Adopted
16.10.2014
Location
København

Við, félags- og heilbrigðismálaráðherrar Norðurlandanna, höfum í dag rætt af miklum áhuga skýrslu sem beðið hefur verið með eftirvæntingu, en í henni leggur Bo Könberg fram 14 tillögur til eflingar norrænu samstarfi um heilbrigðismál.  Tillögurnar varða samstarf um sýklalyfjaónæmi, mjög sérhæfðar meðferðir, sjaldgæfar sjúkdómsgreiningar, rannsóknir sem byggja á gagnagrunnum, lýðheilsu og heilsujöfnuð, hreyfanleika sjúklinga, rafrænar heilbrigðislausnir, velferðartækni, geðlækningar, heilbrigðisviðbúnað, lyfjamál, embættismannaskipti og sérfræðinga landanna hjá Framkvæmdastjórn ESB. 

Við erum sannfærð um mikilvægi þess að þróa og efla norrænt samstarf um heilbrigðismál og teljum margar tillögurnar afar áhugaverðar. Við Norðurlandabúar stöndum frammi fyrir ýmsum svipuðum áskorunum í heilbrigðismálum – varðandi heilsufar almennings en einnig framþróun heilbrigðiskerfa landanna.

Í tilefni ebólufaraldursins felum við framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar að kanna hvort samhæfa megi aðgerðir Norðurlandanna í því skyni að koma í veg fyrir smithættu, veita aðgang að tækjum og meðferð, og ennfremur að samræma norrænar varúðarráðstafanir við sjúkraflutninga á hættusvæðum.

Á þeim grundvelli getum við gengið lengra í samstarfi um ýmis heilbrigðismál með það fyrir augum að bæta heilbrigðisþjónustu allra Norðurlandabúa og auka jafnframt hagkvæmni.

Við höfum tekið ákvörðun um að fylgja skýrslunni eftir og að byrja á tillögum um heilbrigðisviðbúnað, mjög sérhæfðar meðferðir, sjaldgæfar sjúkdómsgreiningar, geðlækningar og embættismannaskipti. Við munum ræða um tillöguna um aukið sýklalyfjaónæmi við starfssystkin okkar á sviði utanríkismála og þróunarsamvinnu. Við væntum mikils af gefandi samstarfi um aðrar tillögur í skýrslu Bos Könberg.