BEINT STREYMI: Hittið þau sem tilnefnd eru til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

09.04.21 | Fréttir
De nominerede til Nordisk Råds litteraturpris 2021
Ljósmyndari
Mette Agger Tang/norden.org
Þann 14. apríl hefst beint streymi frá nýrri röð spjallfunda með þeim rithöfundum sem tilnefndir eru til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Í hverri viku fáum við að hitta einhverja hinna tilnefndu höfunda og fylgjast með umræðum um brjálsemi, sambönd, móðurhlutverkið, ferðalöngun, hnignun, það að lifa af og fleiri þemu úr verkum þeirra. Höfundarnir tilnefndu munu einnig lesa upp.

Bækurnar sem tilnefndar eru í ár koma frá öllum norrænu löndunum og málsvæðunum. Um er að ræða sterkar fagurbókmenntir sem fjalla um að skrifa á blautan pappír, fall kapítalismans og félagslega raunsæ tengsl. Auk þess má finna tillögur að leiðum til að lifa af, dal fullan af plastblómum og spádóm um framtíð jarðar í hinum tilnefndu verkum.

Níu skáldsögur, fjórar ljóðabækur og eitt smásagnasafn eru tilnefnd og hafa höfundarnir Niviaq Korneliussen, Ursula Andkjær Olsen, Andrzej Tichý, Inga Ravna Eira og Vigdis Hjorth verið tilnefnd til verðlaunanna áður.

Spennandi spjallfundir á netinu

Rithöfundaspjallið gerir almenningi kleift að fræðast meira um hina tilnefndu höfunda frá öllum norrænu löndunum og heyra þá segja frá verkum sínum. Spjallfundirnir verða breytilegir að innihaldi og áherslum, allt eftir þeim höfundum og umræðustjóra sem taka þátt hverju sinni.

„Mikill kraftur er í norrænum bókmenntum um þessar mundir og því sérlega gaman að þessi röð fjarsamtala verði nú að veruleika. Áhorfendur koma til með að heyra nokkra af áhugaverðustu höfundum Norðurlanda spjalla um sameiginleg stef, rithöfundarstarfið og sérkenni norrænna bókmennta. Best af öllu er að áhorfendurnir geta setið hvar sem er á Norðurlöndum og átt hlutdeild í þessum gæðastundum!“ segir Yukiko Dike, þýðandi, blaðamaður og þáttastjórnandi, sem stýrir fyrsta spjallfundinum þar sem hin norska Vigdis Hjorth og hin danska Ursula Andkjær Olsen ræðast við.

Misstu ekki af þínum eftirlætishöfundi – merktu við í dagatalinu

Rithöfundaspjallið er sent út beint á Facebook og YouTube í hverri viku og hefjast útsendingarnar 14. apríl.

Spjallfundirnir með rithöfundunum fara fram á skandinavísku, nema fundirnir 12. maí og 26. maí sem fara fram á ensku.

Samnorræn framleiðsla

Þessi röð fjarsamtala er framleidd í samstarfi norrænu menningarstofnananna, sem eru: Norræna menningargáttin í Helsinki, Norðurlandahúsið í Færeyjum, Norræna stofnunin á Grænlandi, Norræna stofnunin á Álandseyjum og Norræna húsið í Reykjavík, þar sem skrifstofa bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs er til húsa.