Fræðafólk og styrkþegar í Finnlandi

Tutkijat ja apurahansaajat Suomessa
Hér er fjallað um það í hvaða landi þú átt aðild að almannatryggingum ef þú þiggur styrk frá finnska ríkinu eða öðrum aðila vegna fræðilegra rannsókna eða listatengdrar starfsemi.

Ef þú stundar doktors- eða löggildingarnám , rannsóknir eða listatengda starfsemi og þiggur til þess styrk, þá þarft þú að huga að tryggingum þínum meðan námið eða starfsemin stendur yfir. Mismunandi reglur gilda eftir því hvort styrkurinn kemur frá Finnlandi eða öðru landi og einnig því hvar starfsemin eða rannsóknirnar fara fram. Álandseyjar teljast sem hluti Finnlands.

Styrkir frá finnska ríkinu

Ef þú þiggur finnskan styrk vegna fræðilegra rannsókna eða listatengdrar starfsemi í Finnlandi þarft þú að verða þér úti um lögbundna lífeyris- og slysatryggingu. Í Finnlandi er það Tryggingastofnun landbúnaðarins, eða Mela, sem sér um lögbundnar lífeyris- og slysatryggingar fyrir styrkþega.

Ef þú sinnir fræðilegum rannsóknum, listatengdri starfsemi eða doktors- eða löggildingarnámi í Finnlandi á styrk sem fellur undir lífeyrislög tryggingastofnunar landbúnaðarins (Mela) um styrkfé, þá átt þú rétt á almannatryggingum og fríðindum frá almannatryggingastofnun Finnlands (Kansaneläkelaitos eða Kela) meðan þú stundar vinnu eða nám á styrk.

Ef þú þiggur finnskan styrk en starfar tímabundið í öðru landi þarf að athuga í hverju tilfelli fyrir sig hvort trygging sé gild á meðan. Tryggingin er gild ef þú átt aðild að finnskum almannatryggingum meðan þú starfar í öðru landi. Þú þarft að sækja um A1-vottorð frá finnsku lífeyristryggingamiðstöðinni (Eläketurvakeskus) til að fá úr því skorið hvort þú átt aðild að finnskum almannatryggingum meðan þú starfar í ESB/EES-landi eða öðru landi sem gert hefur samning um almannatryggingar. Starfir þú annars staðar en í aðildarlöndum ESB eða EES, Sviss eða Stóra-Bretlandi skaltu hafa samband við Kela.  

Þiggir þú einnig laun frá erlendri stofnun eða fyrirtæki heyrir tilvik þitt undir tryggingakerfi viðkomandi lands. Nánari upplýsingar eru á síðunni Hvar átt þú aðild að almannatryggingum?

Á styrk frá Finnlandi en í vinnu annarsstaðar?

Sé unnið tímabundið erlendis þarf að athuga hjá Mela í hverju tilfelli fyrir sig hvort trygging sé gild á meðan. Miðað er við að trygging haldist í gildi svo lengi sem styrkþegi heyrir undir finnska almannatryggingakerfið. Það er ýmist Lífeyristryggingamiðstöð Finnlands (Eläketurvakeskus) eða almannatryggingastofnunin Kela sem úrskurðar um hvort svo sé.

Þiggi styrkþegi einnig laun frá erlendri stofnun eða fyrirtæki heyrir hann undir tryggingakerfi viðkomandi lands.

Styrkir frá öðru landi en Finnlandi

Þau sem þiggja styrki frá öðrum löndum en Finnlandi eiga ekki rétt á lífeyristryggingu frá Mela. Þau sem þiggja erlenda styrki og eru búsett í Finnlandi þurfa að kynna sér tryggingamál hjá viðeigandi stofnun í því landi sem þau koma frá.

Skattlagning námsstyrks

Upplýsingar um skattlagningu námsstyrkja sem greiddir eru frá einu norrænu landi til annars eru í kaflanum Námsfólk, fræðifólk og styrkþegar á síðunni Skattar í Finnlandi.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna