Barnabætur í Finnlandi
Finnska almannatryggingastofnunin (Kansaneläkelaitos eða Kela) greiðir barnabætur vegna barna sem búsett eru í Finnlandi. Finnskar barnabætur eru greiddar frá og með fyrstu mánaðamótum eftir fæðingu barns eða frá og með þeim mánuði þegar barn hlýtur rétt til barnabóta, til dæmis í tengslum við flutning til Finnlands. Barnabætur eru greiddar í síðasta sinn fyrir þann mánuð sem barnið nær 17 ára aldri.
Upphæð barnabóta er þrepaskipt eftir fjölda barna. Barnabætur eru skattfrjálsar tekjur. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Kela.
Athygli er vakin á því að barnabætur á Álandseyjum eru hærri en á finnska meginlandinu. Þær eru greiddar af álensku landsstjórninni. Nánari upplýsingar eru á síðunni Barnabætur á Álandseyjum.
Barnabætur ef flutt er til Finnlands eða starfað í öðru landi meðan búið er í Finnlandi
Réttur til finnskra barnabóta grundvallast á búsetu í Finnlandi. Greiðslur hætta því að berast ef barnið og forsjáraðili þess flytja til annars lands. Í sumum tilvikum getur fólk sem kemur til vinnu í Finnlandi frá öðru norrænu landi fengið barnabætur greiddar jafnvel þó að barnið búi ekki í Finnlandi. Eigir þú rétt á barnabótum í tveimur mismunandi löndum eru fjölskyldubætur þínar ákvarðaðar í samræmi við löggjöf ESB. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Kela.
Þú getur einnig fengið barnabætur greiddar vegna barns sem dvelur tímabundið í öðru landi, hafi barnið fasta búsetu í Finnlandi. Í slíkum tilvikum má tímabundin dvöl erlendis ekki vara lengur en í 6 mánuði. Hægt er að fá barnabætur vegna barns sem dvelur erlendis lengur en í 6 mánuði ef barnið er til dæmis fjölskyldumeðlimur námsmanns, útsends starfsmanns eða einstaklings sem starfar erlendis í umboði finnska ríkisins. Nánari upplýsingar um greiðslu finnskra barnabóta til annarra landa eru á vefsvæði Kela.
Eigir þú ekki rétt á barnabótum frá Kela kannt þú að eiga rétt á barnabótum frá því landi sem barnið býr í. Nánari upplýsingar eru á síðu um barnabætur í viðkomandi landi.
Nánari upplýsingar
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.